11.3.2007 | 19:03
Sunnudagshrollvekjan
Góðan dag.
Stuð í gærkvöldi, þar sem við félagarnir í power-tríóinu Swiss lékur fyrir kexbilað björgunarsveitafólk lengst inni í Hafnarfirði. Tryggvi litli trúbador (Trúbbi litli Tryggvador) villtist einhverra hluta vegna á svæðið og var það hreint ljómandi, því gott er að hafa aukasöngvara, gítarleikara, hljóðmann og aðstoðarkall, svo ekki sé nú talað um einhvern til að sækja meiri söngolíu. Ekki kom þó til þess að þyrfti mikið að fara á barinn, því björgunarsveitarfólkið sendi mjöðinn á svið af miklum móð, svo miklum að ónefndur bassaleikari sveitarinnar var farinn að láta á sjá. Þessir bassaleikarar...
Eníhjú, sökum þess að ég horfði nýverið á The Departed, þá ágætisræmu, ákvað ég að rifja upp Batman, hvar Jack Nicholson fer mikinn í hlutverki Jókersins. Alltaf jafn skemmtileg mynd. Svo sá ég Prestige um daginn - hún er líka ljómandi skemmtileg og hressandi. Mæli með henni, þrátt fyrir að hún sé í raun arfavitlaus, en það er nú Batman líka. Gaman að því að í Prestige sjá um aðalhlutverkin Christian Bale, sem leikur einmitt Batman um þessar mundir, Hugh Jackman, sem leikur jú hinn minnisskerta Wolferine þegar það á við, og Michael Caine, sem leikur jú hinn ljómandi geðþekka Alfred í Batman. Ekkert nema tómar ofurhetjur og aðstoðarmenn þeirra.
Annars lék Hugh Jackman líka hinn vitaminnislausa Van Helsing hér fyrir skemmstu. Mikið ljómandi væri nú gott að geta gleymt henni. Mig hreinlega sárverkjaði í Drakúla-aðdáunina við að horfa á hana og sá mikið eftir peningnum sem myndin kostaði mig. Pakkaði svo disknum niður og setti niður í kjallara, þar sem þessi ósköp fá ekki að sjónmenga dvd-hillur heimilisins.
Hvað um það, þar sem ég minntist áðan á Michael Caine væri ekki úr vegi að minna fólk á hinar ágætu Harry Palmer-myndir, sem hann lék í hér í den. Fyrsta hét The Ipcress Files, var gerð in ðö sixtís, þegar James Bond var aðal. Harry Salzman framleiddi, en hann var jú annar framleiðanda Bond fram til ´73 eða 4. Hann vildi gera vitrænar njósnaramyndir um njósnara sem sér ekkert án gleraugnanna, hitar sér kaffi á morgnana og er með hárgreiðslu sem ruglast þegar hann er laminn. Skemmtileg mynd. Var fylgt eftir skömmu skíðar með Funeral in Berlin, sem var líka þrusufín. Billion Dollar Brain kom svo ´67, ekki jafn hressandi. Reyndar alveg hreint öfgavitlaus, en skárri en margt.
Reyndar var einhver Harry Palmer-mynd gerð sjötíuogeitthvað, en ég hef aldrei séð hana. Svo tóku þeir sig til, blessaðir mennirnir og fengu Caine til að leika í tveimur Harry Palmer-sjónvarpsmyndum um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Þær heita Bullet to Bejing, sem er hreint ágæt, og Midnight in St. Petersburg. Á báðar á VHS og var einmitt að finna þær í geymslunni áðan - verð að fara að horfa á St. Petersburg, hef einhverra hluta vegna aldrei komið því í verk, frekar en að lesa bækurnar um þennan blessaða leyniþjónustumann, en ég á eitthvað af þeim einhversstaðar. Hann heitir reyndar eitthvað allt annað í bókunum og er víst allt öðruvísi, en hvað um það.
Fyndið hvað maður á mikið af myndum sem hafa ekki enn ratað í spilarann. Er búinn að eiga heillengi Passion of the Christ, Bokeback Mountain, Hotel Rwanda, 21 Grams, Schindlers List, Elizabethtown, Million Dollar Baby, Sideways og tugi annara mynda sem ég á eftir að sjá. Svo eyðir maður tíma í að horfa á Anacondas (já, Anaconda 2!) og Da Vinci Code. Svona er maður nú vitlaus. Reyndar mætti ætla af þessu að ég hefði greindarvísitölu svipaða meðalhitastigi í febrúar hérlendis - ég er samt fínn kall. Ekki hata mig.
Nú er ég búinn að steingleyma hvað ég ætlaði í upphafi að skrifa, en það á ekkert skilt við umfjöllunarefni þessarar færslu. Gaman að því.
Lag dagsins er þetta hér. Verið hress.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.