2.4.2007 | 21:11
Ál, vesen, Akureyri, gleði og stuð
Fór norður um helgina og spilaði á Café Amour, þeim ágæta og reyklausa stað. Gaman að því að fjórðungur gesta eyddi helmingi kvöldsins úti við dyr að svæla...
Annars svakastuð að hitta ma og pa og Vidda (oft kallaður Ljótur) bróðurómynd mína.
Þó ég sé flokkaður sem últrafrjálshyggjuplebbi er ég svolítið ánægður með reykingabannið. Þrátt fyrir að sumir strompar væli yfir því að yfirvöld séu að troða persónufrelsi þeirra í skítinn á fasískan hátt í nasistastígvélum sínum á gæsagangi er það ekki alveg svo. Menn væla svo yfir því að ekki megi bjóða upp á reyksvæði, en svoleiðis hefur bara sjaldnast virkað. Reykingalyktin fer bara út um allt (muniði auglýsinguna þar sem sundlaugin var með pisssvæði og pisslaus svæði?). Ef menn þurfa endilega að fá sér sígó verða þeir bara að gera það án þess að fötin mín lykti eins og strompur að afloknum skyldustörfum. Vilji ég reykja er ég ekkert of góður til að labba aðeins útfyrir og fíra í án þess að pirra aðra. Spurning hvort ég ét þetta paragraf ekki ofan í mig í heild sinni á einhverju fylleríi eftir 1. júní.
Svo mál málanna - stækkun álvers hafnað af Hafnarfjarðarbúum. Álverssinnar segja að fleiri hundruð manns hafi skráð lögheimili sitt í Hafnarfirði og svindlað þannig í kosningunum - ég veit um einn, en er ekki alveg sannfærður um að þeir séu mörg hundruð. Þó kannski, hver veit...
Mér finnst samt margt asnalegt við kosninguna. Til dæmis að Hafnfirðingar eingöngu hafi haft kosningarétt, því þetta er langt frá því þeirra einkamál. Margir aðrir hafa hagsmuna að gæta, bæði með og á móti, starfsfólk sem búsett er um allt höfuðborgarsvæðið og á Stór-Keflavíkursvæðinu, sem og andstæðingar búsettir á þeim svæðum hvar virkja átti. Mega þá bara íbúar í nágrenni Bessastaða kjósa í næstu forsetakosningum? Já, ég veit, ekki alveg það sama, en þið skiljið hvað ég á við.
Svo segja margir að það sé asnalegt að hafa álver inni í miðjum bæ. Ekki var það inni í miðjum bæ þegar það var byggt fyrir fjörtíu árum. Mér finnst frekar asnalegt að byggja bæ kringum álverið. Búið að gerspilla ósnortinni náttúru í umhverfi álvers með því að byggja þarna bæ...
Eníhjú, myndir upp á síðkastið. Rifjaði upp E.T. með Litla-Svepp. Man þegar ég stóð í biðröð hálftímunum saman fyrir utan Borgarbíó á Akureyri þegar ég var krakki og beið troðfullur eftirvæntingar eftir að sjá góðlega geimveru koma öllum í stuð. En, allavega, svakaskemmtileg mynd allavega og Drew Barrymore svakagóð leikkona strax níu vetra.
Caddyshack. Skömm að segja að ég sá hana í fyrsta sinn rétt áðan, liggjandi heima með hita og skít. Drullufyndin prumpugrínmynd, allavega miðað við hverju ég hafði búist við.
Date Movie. Sorp. Sé þessar níutíu mínútur aldrei aftur. Hló samt svona fjórum sinnum.
Thank You for smoking. Ferlega fín og Aaron Eckhardt gríðargóður í hlutverki kjaftasks frá helvíti. William H. Macy er líka æðislegur... sem og flestir í myndinni. Þrjár drullukökur.
Svo keypti ég mér Turk 182 um daginn, en hana hef ég ekki séð í 21 ár. Hver man eftir henni? Hlakka til að rifja hana upp.
Snæðiði snæri.
Athugasemdir
Jamm svolítið sammála þér með að þetta snerti fleiri en Hafnfirðinga. En bæjir og borgir stækka nú oft sem betur fer og þá þarf nú bara að endurskoða hlutina af og til, ég held að það sé óumflýjanlegt, en ég held að það sé ekkert verið að fara að hætta að byggja íbúðarhús. Það sem mér finnst skrítið með þetta reyndar er að það sé verið næstum því að kjósa um eitt fyrirtæki, það ætti auðvitað að hafa kosningur um víðtækari grundvallarstefnu varðandi skipulagsmál bæjarins sem væru þá bindandi til lengri tíma. En hvað veit ég...
-Stefán
Stefán (IP-tala skráð) 2.4.2007 kl. 21:41
Turk 182 séð hana 100 sinnum. Var eina myndin sem ég átti þegar ég var 14 ára, eðall.
Lúðvík er búin að telja og það hafa um 300 hræður flutt löheimili til Hafnarfjarðar síðan í desember 2006. Sem er víst á svipuðu róli og síðustu ár. Og ekki nærri allir með kosningarétt. Annars er það hvort eð er ekki bannað og bæði þeir sem vilja brennistein og hata börn og þeir sem elska börn og náttúruna hafa notið góðs af nýbúum með kosningarétt. Ég man nú bara eftir því í síðustu kosningum þegar fólk var beinlínis beðið um að flytja lögheimili úr einu sveitafélagi í annað svo hægt væri að hafna sameiningu við þriðja sveitafélagið. En annars verður þetta stækkað hvort eð er því fólk er gráðugir hálfvitar með hor. Það vilja bara allir flatskjá í eldhúsið og bíl sem kostar meira en strætó handa miðjubarninu. Vei peningar, vei kapítalistar sem fara til helvítis
Það ætti að skera þetta pakk á háls og skíta í sárið
Elvar Geir Sævarsson (IP-tala skráð) 2.4.2007 kl. 23:01
Jú, það er rétt að bæjarfélög stækka og sum hraðar en önnur. Eins skilst mér að lönd Hafnarfjarðarbæjar séu af skornum skammti og því nauðugur einn kostur að byggja upp í bakgarð álversins. En það er í lagi því æði margir bæir slást nú um álver.
Annars á ég bágt með að trúa að 300 manna fjölgun aðflutta á fjórum mánuðum sé í takt við síðustu ár. Það táknar 900 manns á ári. Bara aðfluttir, fyrir utan fæðingar. Kannski er það rétt, en mér finnst það svakalega mikið. En uppbygging hefur verið allsvaðaleg í Hfj.
Annars sagði Lúlli bæjarstjóri eitt sinn í viðtali að uppáhaldsstjórnmálamaðurinn hans væri Stalín. Sem var ekki síður fjöldamorðingi en Hitler. Hvernig finnst ykkur það?
Ingvar Valgeirsson, 3.4.2007 kl. 11:43
Híhíhí. Loksins þegar kemur skoðun er hún samt út í hött.
Ingvar Valgeirsson, 3.4.2007 kl. 13:12
http://visir.is/article/20070403/FRETTIR01/104030103
Elvar Geir Sævarsson (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 14:48
Þetta er algjörlega úr lausu lofti gripið. Við skoðuðum þessi mál og ljós kom að það voru minnstu flutningar til Hafnarfjarðar eftir að tilkynnt var um þessa íbúakosningu," sagði Skúli Guðmundsson, skrifstofustjóri Þjóðskrár, í gær.
Elvar Geir Sævarsson (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 14:49
Jú, Date Movie er síst skemmtileg, en ég er haldinn geðveilu, sem lýsir sér sem svo að ef ég sé byrjun myndar þá verð ég að klára hana. Agalegt stundum, t.d. þegar ég sá byrjunina á Runaway Bride eitt sinn og varð að leigja hana til að sjá restina. Gerði svo sama með Finding Forrester, en hún var samt svolítið skemmtileg.
Elvar, mér finnst svaðalegt ef 1000 manns flytja árlega til Hfj., eins og þetta bendir til. Þá veitir ekki af að reka álverið á brott og nýta svæðið undir fjölbýlishús, því ekki á Hfj. mikið land eftir.
Ingvar Valgeirsson, 3.4.2007 kl. 16:19
Hey Hó þó ég sé yngri er ég þó annskoti myndarlegri,, ( held að fólk hafi sagt það um helgina) svo er álver , að mér finnst, ákvörðun þjóðar ef hún er sérstaklega í þétttbýliskjarna óttans og ef Hansi frændi leikur i bíomynd klárar maður að horfa ,, OK
Vidar (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 01:31
Sæll Ingvar.
Þótti leitt að missa af Amour um síðustu helgi. Ég minni þessa dagana á skakka turninn í Písa.
Sammála þér með reykingabannið, þetta er það sem koma skal.
Hafnafjörður: No comment- leiðist þessi umræða.
Pétur Guðjónsson, 4.4.2007 kl. 09:29
Hvað voru bestu lögin ykkar þessa kvöldstund (annað en Dust in the wind)?
Haukur Nikulásson, 4.4.2007 kl. 18:59
Eg er líka ultrafrjálshyggjuplebbi, nota samt ekki rétt minn til að reykja og er á móti banninu. Það hlýtur að vera hægt að leyfa þeim að reykja, sem það vilja. Það getur ekki verið að ég fái krabbamein á því að labba í gegnum reyk.
Ef þetta er svona djöfulli hætulegt, þá á að bara að banna þetta alveg eins og sýru. Fáránlegt að ríkið selji vöru sem hvergi má nota.
Tómas Þóroddsson, 5.4.2007 kl. 09:50
Mér finnst það góð hugmynd að Álftnesingar kjósi bara í forsetakosningum( enda vitað mál að Álftnesingar eru keppnis :D )
kv.
Killerinn
Siggi killer (IP-tala skráð) 5.4.2007 kl. 13:17
Tommi, þú sagðir "það getur ekki verið að ég fái krabbamein á því að labba gegnum reyk". Hvorki Haukur Morthens né Ingimar Eydal reyktu, en dóu báðir úr krabba, enda á kafi í reyk í vinnunni flest kvöld. Tíðni krabbameins er mun hærri hjá reykleysingjum sem eru mikið innan um reykingafólk en hjá öðrum. Óbeinar reykingar hafa mikil áhrif. Jú, það er skrýtið að ríkið selji hættulegar vörur, en það er ekki eins og það megi ekki nota hana neinsstaðar.
Smokkar eru líka seldir, en bannað að nota þá á skemmtistöðum og á almannafæri (allavega bannað að nota þá í þeim tilgangi sem þeir eiga að þjóna).
Ég held að eftir aðeins fáein ár muni reykingabannið þykja alveg sjálfsagt og reyklausir skemmtistaðir jafnsjálfsagðir og reyklausir bankar og vefrslanir þykja í dag. Samt man ég þá tíð þegar reykt var á öllum mögulegum og ómögulegum stöðum, t.d. var öskubakki á afgreiðsluborði Tónabúðarinnar þegar ég fyrst vann þar ´91 og reykt var út um allt. Nú myndi ekki nokkrum manni detta í hug að fíra í vindlingi inni í Bónus.
Ingvar Valgeirsson, 5.4.2007 kl. 16:52
Já maður á kannski eftir að sætta sig við þessi bönn öll. Þó þetta bann bitni ekki á mér er ég hræddur um þessi ríkistjórn sem nú er, eigi eftir að færa sig enn uppá skaftið.
Já margir hafa dáið úr óbeinum reykingum, en þær eru auðvitað ekki hætulegri en beinar reykingar. Reykingamenn í dag eru líka kurteisari, fyrir nokkrum árum var reykt í öllum bílum, þó svo að börn væru í bílnum. Þannig að leiða má líkum að því að óbeinar reykingar voru meiri fyrir nokkrum árum.
árið '91 fór ég að vinna á hóteli og þá var kokkurinn með öskubakka við hliðina á eldavélinni.....það er cool.
Tómas Þóroddsson, 5.4.2007 kl. 21:32
Er reykingabannið barn stjórnarliða? Mér skilst að þeir einu sem hafi barist gegn því séu einmitt Sigurður Kári og últrahægragengið.
Jú, reykingamenn eru vissulega meðvitaðri í dag en áður fyrr, þegar fólk svældi allsstaðar. En það er oft óþolandi fyrir starfsfólk veitingastaða, tónlistarmenn, barþjóna og aðra, að vera á kafi í reyk jafnvel mörg kvöld í viku. Eins fyrir hinn almenna kúnna, sem getur ekki farið að sjá og heyra Sálina hans Jóns míns neinsstaðar án þess að vaða reyk, bókstaflega.
Frelsi einstaklingsins ætti að vera sjálfsagt - þangað til það bitnar á frelsi annara. Menn eiga að fá að reykja, ef þeir kjósa svo. En ekki ofan í næsta mann.
Ingvar Valgeirsson, 6.4.2007 kl. 00:53
Já reykingabannið er barn stjórnaliða, þó að í atkvæðagreiðslu hafi fáir sjálfstæðis- og samfylkingar strákar greitt á móti því.
Eg veit alveg hvað þú ert að tala um, ég held bara að þróunin héfði orðið sú að fleirri en færri staðir hefðu eftir nokkur ár orðið reyklausir. Kaffi Krús á Selfossi hinu góða varð reyklaus fyrir ári síðan og þar hefir veltan margfaldast, þar fer ég orðið ca þrisvar í viku, en fór aldrei áður vegna brælu.
Það sem ég er aðalega að meina er að við verðum að sína stjórnvöldum aðhald þegar þau byrja að banna, athuga hvort til séu mildari leiðir.
Tómas Þóroddsson, 6.4.2007 kl. 10:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.