18.4.2007 | 21:32
Meiri bíógetraun, röfl, kjaftæði, ofát, Kínverji, vesen, spilerí, kjaftæði og bull
Best að skjóta fram meiri bíógetraun. Enn er spurt um leikara.
Leikur var ekki á framtíðarplaninu, þar sem hann vann við pípulagnir. Eitt sinn var hann að gera við klósett í leikhúsi þegar hann var beðinn um að hlaupa í skarðið fyrir leikara sem varð veikur. Svo varð hann megastjarna, fyrst á sviði og svo í bíó. Einnig söng hann lag sem varð ákaflega vinsælt.
Hann lék í allskemmtilegri mynd á móti leikara, sem seinna átti eftir að láta að sér kveða í stjórnmálum.
Hann lék eitt sinn í ákaflega frægri mynd, hvar hann lék persónu sem var byggð á vini hans úr raunveruleikanum. Átján árum seinna lék hann í framhaldi myndarinnar - sem væri svo sem í lagi, nema hvað framhaldsmyndin á að gerast aðeins fáum mánuðum eftir fyrri myndina. Jú, hann lék sama karakterinn.
Hann drap fólk - já, í alvörunni. Núna er hann sjálfur fallinn frá, fékk hjartaáfall rétt rúmlega sextugur.
Verðlaun eru lítið notaður ópalpakki. Veit einhver svarið?
Hvað um það - sá skemmtilega auglýsingu í blaðinu í dag. Þar var mynd af Ingibjörgu Sólrúnu og texti, sem sagði "kjósum burtu biðlistana" eða eitthvað á þá leið. Skemmtilegt í ljósi þess að meðan hún var borgarstjóri tókst henni ekki að eyða biðlistum á leikskólum, þrátt fyrir að börnum á leikskóaaldri fækkaði um rúmlega sex hundruð í borginni á þeim tíma. Jú, og hækkaði skuldir borgarinnar úr fjórum milljörðum í sextíu og fimm milljarða, þrátt fyrir að leggja á nýja skatta og hækka útsvar í löglegt hámark, en það var eitt það lægsta á Íslandi þegar hún tók við. Gefum henni gott klapp.
Annars er ég bara hress. Hitti Hansa, vin minn, í gær, en hann hitti ég sjaldan, þar sem hann býr í Kína. Fórum á hlaðborð í hádeginu á Pottinum og pönnunni, American Style í kvöldmat og löbbuðum svo yfir á Rósenberg í kaffibolla (náum því væntanlega ekki aftur í bráð) og svo á Grillhúsið, hvað ég tróð svo illilega í trantinn á mér að ég var við það að gubba meðan ég spilaði og söng í gær. Vildi mér reyndar til happs að Ingi Valur kom og var memm, auk þess sem Pétur Örn leit við og slapp að sjálfsögðu ekki við að taka nokkur lög og þiggja veitingar.
Svo má benda á að ég leik fyrir drykkjulátum á Dubliner annað kvöld. Mætið sum.
Athugasemdir
Þetta var Lee Marvin sá geggjaði leikari. Lagið sem þú vísar til er I was born under a wandrin' star. Myndirnar eru The Dirty Dozen.
Hvað var mikið eftir í Ópal pakkanum?
Haukur Nikulásson, 19.4.2007 kl. 09:18
Var ekki "I talk to the trees" í flutningi Clint Eastwood á hinni hlið Lee Marvin plötunnar?
Pétur Örn Guðmundsson, 19.4.2007 kl. 14:14
Haukur hafði það! til lukku með þetta, auðvitað var það Lee Marvin, sem barðist í seinna stríði og hjó þar margan japanann í herðar niður. Lék svo á móti Ronald Reagan í Killers og lék í Dirty Dozen, sem og framhaldi þeirrar myndar.
Mikið er ég glaður...
Ingvar Valgeirsson, 19.4.2007 kl. 21:00
Og sonur minn át ópalið... býð þér bara í glas í staðinn, ókei?
Ingvar Valgeirsson, 19.4.2007 kl. 21:01
Nó problemo, Ingvar!
Haukur Nikulásson, 19.4.2007 kl. 22:09
Rampaði inn á þessa eitur fínu síðu ..........verð bara að segja hæ........... Hæ. Kannski maður kíki bara reglulega við hérna hjá þér til að sjá hvað þú hefur uppá að bjóða! Takk fyrir kaffið
Glimrandi kveðja frá Andra litla frænda!!
Andri Birgiss (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 01:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.