20.9.2007 | 12:51
Murray
Eins og Jósi klippari (eða hárgreiðslumaður, eins og Séð og heyrt hélt fram um árið) hreinlega snæddi geraunina mína í millimálasnarl. til lukku með það.
Spurt var um Murray Head. Hann söng Júdas í J.C. Superstar, lék bísexúal listamann í Sunday bloody sunday, lék frakka í Dýrlingsþætti, aukahlutverk í Hróa hattar-sjónvarpsþáttum og fólk á mínum aldri man eftir þessum svaðahittara úr söngleiknum Chess. Tony litlibróðir tók reyndar við hlutverkinu af stóra bróður síðasta árið, en Tony hefur leikið í Buffy-þáttunum, Lady Chatterley´s Lover-myndinni og jú forsætisráðherrann í Little Britain - þennan með svaðlega kynvillta aðstoðarmanninn.
Snillingar báðir tveir. Hlutið á hittarann, nostalgían alveg kemur í yfirvinnu.
En nóg um það. Nýja yfirlöggan vill að skemmtistaðir í miðborginni loki klukkan eitt eða tvö um helgar. Frábær leið til að rústa atvinnu gríðarlegs fjölda fólks til að Þráinn Bertels geti sofið í friði. Ef af verður - sem ég reikna reyndar ekki með, því afturhald og forsjárhyggja eiga vonandi ekki upp á pallborðið hjá almenningi í dag - legg ég til að við djömmum herfilega í bænum eins lengi og við megum og klárum partýið svo fyrir utan hús lögguforingjans með taumlausum látum fram undir rauðan morgun. Kíkjum svo á hádegisbarinn.
Ætli maðurinn í lúðrasveitarbúningnum geri sér grein fyrir hversu margir staðir komi til með að fljúga á höfuðið ef þeim verður gert að loka klukkan tvö, ég tala nú ekki um ef þeir ganga alla leið og loka klukkan eitt? Heldur maðurinn virkilega að fólk hætti bara að drekka og fari heim að sofa? Partýum í heimahúsum, án eftirlits dyravarða eða lögreglu, kemur til með að fjölga gríðarlega og þar með útköllum lögreglu vegna óláta og/eða ofbeldis í heimahúsum. Gamla tveggja tíma leigubílaröðin, sem ég leyfi mér að fullyrða að enginn - leigubílstjórar meðtaldir - saknar, kemur aftur í banastuði. Líklega verður meiri örtröð í bænum hér eftir en hingað til ef allir staðirnir loka á sama tíma og gleðin heldur áfram eftirlitslaus í heimahúsum ellegar undir berum himni.
Lausnin hlytur að felast í fleiri löggum á vakt um helgar að fylgjast með að allt fari sómasamlega fram og taka á þeim sem haga sér illa. Er það ekki að ganga ágætlega þessa dagana? Nenna þeir ekki að halda því áfram og vilja því loka strax upp úr miðnætti svo þeir komist heim að horfa á sjónvarpið?
Orð dagsins er "forsjárhyggjuplebbi".
Athugasemdir
það er greinilegt Ingvar minn að þú ert mjög hlynntur því að staðir loki klukkan 2:)
Ég er sammála því að drykkja íslendinga er að verða eins og hjá grænlendingum. hvers vegna þarf fólk að drekka frá sér allt vit og lemja mann og annan? er ekki hægt að skemmta sér án þess að vera í stórhættu í miðbænum? ég held að ef skemmistöðum loki fyrr þá verði ekki eins mikið af ofbeldi í bænum.
manstu þá gömlu góðu daga þegar við skemmtum okkur í sjallanum og kjallaranum án þess að þurfa stöðugt að líta um öxl. ég vil ekki lengur fara niðrí bæ að skemmta mér, gæti verið lamin í einhverri röðinni:)
en ég verð nú að fara að kíkja á þig snúlli:) spilar kannski Clapton fyrir mig
RabbabaraRúna (IP-tala skráð) 20.9.2007 kl. 14:07
Clapton, já - þá er ég búinn að fatta hver þú ert, elsku hjartans dúllusnúðabollan mín!
Það hefur margt breyst síðan við drukkum brennivínið okkar í Sjallanum. Ekki bara opnunartími skemmtistaða, heldur líka hefur margt breyst hjá fólki almennt. Ég man t.d. þegar ég fyrst fór út að skemmta mér í Reykjavík sá maður löggur út um allt í bænum. Veitti mér notanlega öryggistilfinningu. Svo sást varla nokkur í áraraðir og allt í einu tóku þeir málið af alvöru eftir að heil kynslóð skemmtanasjúklinga hefur alist upp við það að þeir geti gert allan andsk... í miðbænum án þess að nokkur grípi inn í, svo fremi þeir væru ekki að drepa einhvern. Hegðan lýðsins breytist ekki á einni helgi, löggan verður bara að vera fjölmenn, sýnileg og vinna í málinu. Á meðan er þó fólk allavega í bænum á fylleríi, en í minna mæli eftirlitlslaust í heimahúsum.
Ingvar Valgeirsson, 20.9.2007 kl. 16:28
Blessaður orðhagi gítarglamrarinn þinn!
Menn verða nú áfram eftirlitslausir heima Ingvar , ákveðin hópur heldur sig alltaf heima og lemur sitt hyski og ber, alveg burtséð frá opnunartímum "Skemmtistaða"!En eins og þú og hún rúna sæta, minnist ég Sjallaáranna með vissu bliki í auga og bros á vör, sem sungið var um árið, nema hvað ekki þess er ég blóðgaði vissan ónefndan gaur og braut Monitorinn þinn haha!Hvað skildu vera mörg ár liðin, 12-14? Kynvilltur! Er það ekki bannorð? En mér sýnist þú nú aðeins ósammála sumum um eftirlitið, jú fínt að hafa sýnilega löggu, en mega ekki míga undir súð!?
Og Ingvar minn, þetta eru nú fulltrúar þínir í hinu orðinu allavega, sem vilja þessa nýju tíma, Stefán litli jú uppalin undir verndarvæng BB!
Magnús Geir Guðmundsson, 20.9.2007 kl. 17:53
BB... já, ég man vel eftir því þegar ég strikaði yfir hann...
Ingvar Valgeirsson, 20.9.2007 kl. 18:01
Hahaha, gott hjá þér, en heyrðir þú í "Heimdallardollunni" áðan á Stöð2? Hún vill ekki sjá eftirlitið þitt í miðb´ænum heldur!
Magnús Geir Guðmundsson, 20.9.2007 kl. 18:49
Ég er sko alveg harður á því að það að lengja opnunatíma veitingahúsa var arfavitlaust. Ég sagði það þegar hugmyndin kom fyrst upp og hef sagt það æ síðan. Það eina sem breyttist við breytingu á opnunartíma er að fólk kom enn seinna í bæinn, en drukknara. Og trúlega það eina sem myndi breytast ef opnunartíminn yrði styttur er að fólk kæmi fyrr. Það er einhvernveginn bara þannig - nokk sama hvenær veitingahúsin loka - megnið af kúnnunum kemur 2-3 tímum fyrir lokun.
Það sem þyrfti að gera er að fá fólk fyrr á veitinghúsin með lægra verði á veitingum, en til þess að það sé hægt þarf að lækka áfengisgjaldið (og auka að sama skapi smásöluálagningu ÁTVR) þannig að það sé ekki mikið dýrara að drekka á veitingahúsi en heima. Þá held ég að þetta vandamál leysist bara af sjálfu sér - fólk kæmi edrú í bæinn (þá væri jafnvel hægt að spila fyrir það skaplega vitiborna tónlist) og langflestir væru búnir að fá nóg af veitingahúshangsi kl. 02 eða svo. Þá mætti opnunatíminn vera eins frjálst og hann vill. En ef áfengisgjaldinu verður ekki breytt þá er langbesta plan b að loka stöðunum fyrr. Taxaröðin var ekki svo slæm nebbla - ég man alveg eftir henni. Og hún yrði styttri ef staðirnir fengju mislöng leyfi. Kaffihús fengju t.d. skemmra leyfi en ballhús. Og það þyrfti að skilyrða leyfin einhvernveginn þannig að staðir séu ekki að rembast við að vera allt. Ömurlegt að fara á kaffihús t.d. þegar það tekur svo uppá því þar sem þú situr og sötrar latté og gluggar í exotísk tímarit að staðurinn breytist í diskótek svo maður hrökklast út undan hávaða og leiðnlegri stuðmúsik. Helv stuð - stórlega ofmetið, segi það enn of aftur.
Jón Kjartan Ingólfsson (IP-tala skráð) 20.9.2007 kl. 20:37
Alveg er ég sammála síðasta ræðumanni. fólk kemur í bæinn sauðdrukkið með slef og hor kl 3, lendir í biðröð, pissfullt og ógeðslegt mígur á næsta mann, fer inn á staðinn og drekkur enn meira. LOKA STÖÐUNUM KL 3. sýnileiki lögreglunnar er alltaf góður en það vantar lögreglumenn til starfa og að meðaltali vantar 8 á hverja vakt. ríkið vill ekki borga þeim né öðrum mannsæmandi laun. þannig að ekki er hægt að kenna lögreglunni um, talið við dómsmálaráðherra.
RabbabaraRúna (IP-tala skráð) 21.9.2007 kl. 10:12
Jú, ég er hjartanlega sammála með áfengisafsláttinn, hann ætti að vera sjálfsagður - en vissulega hörð viðurlög ef hann er misnotaður. Svo, eins og þú veist, gæti ég ekki verið meira sammála með að stuð sé ofmetið. Fjör er ekkert sérstakt heldur. Taxaröðin var, og er stundum ennþá, uppfinning skrattans. Ég veit það vel, ég hef hitt ömmu hans.
En að sötra latte og glugga í exótísk tímarit - hvaða bévítans hommakaffihús ertu eiginlega að tala um? Café Lúbríkant?
Ingvar Valgeirsson, 21.9.2007 kl. 10:13
Og RabbabaraRúna, það eru örugglega ekki launin sem eru aðalvandamálið í löggunni -aþað eru allavega ekki mörg ár síðan miklu mun færri komust að en vildu.
Ingvar Valgeirsson, 21.9.2007 kl. 10:14
Jú Ingvar illatittur það sem hún rabbabara er að meina er fjöldin, allar ríkisreknar stofnanir eru of fámennar af því ríkið vill bara borga ákveðið mörgum x laun en ekki nægilega mörgum x laun svo hægt sé að sinna öllu sem þarf að sinna hverju sinni í sinn sjittí.
Og mér finnst bara allt í lagi að næturklúbbarnir flytji sig upp í iðnaðarkverfin þar sem fulla fólkið verður minna til ama þegar það fer að pissa og æla yfir allt og alla undir morgun. Fólk ætti ekki að þurfa að missa vinnuna út af því, það bara færir sig um set.
Brynhildur (IP-tala skráð) 21.9.2007 kl. 14:38
Það hljómar voðalega vel að segja að klúbbar eigi að flytja sig í iðnaðarhverfin - en það kostar hvern klúbb óheyrilegar fjárhæðir, jafnvel tugi milljóna, að flytja eitthvað út í rassgat. Innréttingar, breytingar á húsnæði, niðurrif á veggjum, byggingarefni og svo tapið sem hlýst af því að hafa lokað meðan á flutningunum stendur. Til þess eins að flytja í iðnaðarhverfi, sem hefur hvort eð er örugglega fleiri íbúa en miðbærinn. Þar með er viðkomandi klúbbur og eigendur hans komnir lögformlega á höfuðið.
Til hvers í andsk... að hafa miðbæ ef fólk má ekki vera þar? Eigum við ekki bara að þrífa hann vel og plasta hann inn?
Ingvar Valgeirsson, 21.9.2007 kl. 17:12
Þessi umræða er nú komin út í algjört rugl, í einu og öllu.
Í fyrsta lagi, er algjörlega ófært að loka skemmtistöðunum klukkan 2. Skemmtanaferli Íslendinga hefur breyst á undanförnum árum í þá veruna að fólk fer seinna og seinna út. Það að ætlast til þess að það fari núna út klukkan níu og sé komið heim í rúm klukkan tvö er bara ekki fræðilegur, hvort sem lúðrasveitarforinginn óskar eftir því eða ekki.
Leigubílaröðin er alveg nógu löng eins og hún er. Loki skemmtistaðir klukkan tvö verður hún hræðilega löng, með tilheyrandi pústrum og slagsmálum. Svo verður hörgull á leigubílum upp í úthverfum þegar ferja þarf fólk á milli partýa, því ekki hættir vargurinn að skemmta sér klukkan tvö.
Skynsamlegra væri að, eins og IV kemst að orði, að fjölga lögreglumönnum á vakt í miðborginni, OG að ráða aftur starfsmann í leigubílaröðina, til að koma í veg fyrir slagsmálin þar. Þetta er bara sá kostnaður sem þarf að fara út í eftir að hafa leyft borgarbúum að vera óvaldaðir og ruglaðir, snarvitlausir af ölvun í alltof mörg ár.
Eða þá að gera eins og IV gerir, vera með sinn eigin leigubílstjóra sem mætir til hans þegar hann hringir, engin röð, enginn kuldi, bara notalegur bíll og skítruglaður bílstjóri.
Og að færa skemmtistaðina út í iðnaðarhverfin ? T.d. við IKEA í Garðabænum ? Flott staðsetning, það á eftir að koma þangað fólk í Hópferðabílum ! Eða þannig
Olli leigubílstjóri (IP-tala skráð) 23.9.2007 kl. 19:47
Sammála - sérstaklega þó með að bílstjórinn sé skítruglaður. Það er síst orðum aukið. :)
Ingvar Valgeirsson, 24.9.2007 kl. 16:30
Á mínum yngri árum var ég soldið að skemmta mér en hætti því þegar bláókunnugt fólk var að bjóðast til að lemja mig á skemmtistöðum bæjarins. Síðan hef ég lítt farið niðrí miðbæ. Um síðustu helgi skutlaði ég félögum mínum niður á Kofa Tómasar Frænda eftir gigg. Hinumegin við götuna voru u.þ.b fjórir ungir menn að myndast við að fara að slást. Það var eitthvað búið að stía þeim í sundur þegar það mættu fjórir lögregluþjónar á svæðið. Þeir ræddu við alla drengina, leituðu á þeim og teymdu þá síðan í burtu. Það fannst mér gott. Ekkert verið að gera upp á milli manna þarna. Þannig að það er von.
Varðandi opnun skemmtistaða þá er það reykingabannið sem veldur þessum mannfjölda á götunni, ekki að staðir séu opnir til hádegis. Það lagast um leið og veturinn gengur í garð.
Loftur (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 16:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.