12.10.2007 | 15:33
Röss
Sit hér hjá Steina vini mínum, sem býr einmitt hér í Lundúnahreppi. hann býr svo vel að eiga tölvu með almennilegum stöfum eins og ö, ý og ð, svo þá er hægt að segja frá bestu tónleikum sem heimurinn hefur hýst.
Við komum með lestinni smekklega snemma að Wembley. Ég fjárfesti í Rush-peysu sem blökkumaður hafði til sölu, eitthvað bootleg örugglega. átti reyndar eftir að missa mig svolítið með kortið í official-sölunni í hléinu og fá mér gott úrval af klæðnaði, hálsmen, lyklakippu, lesefni og fleira. Keypti þó ekki bleiku þveng-nærbuxurnar sem voru í boði né húfuna. Sé eftir því núna.
Nú, maður fjárfesti í einum köldum og fékk sér sæti. Sat ekki með samferðamönnum mínum, en þeir höfðu keypt sína miða ögn áður en minn var keyptur. Sætið var aftar en ég hafði haldið, en það kom ekki að sök, ég sá sviðið feykivel og var staðsetningin um það bil sprilljón sinnum betri en síðast þegar ég var á Wembley fyrir hálfu fjórða ári. Þá horfði ég á Duran Duran ofan úr rjáfri.
Smekklega löngu eftir auglýstan tíma slökknuðu ljósin og tæplega tveir tugir þúsunda fólks í Rush-bolum öskruðu úr sér lungu og lifur af ánægju og spenningi. Þrír stórir sjónvarpsskjáir byrjuðu að sýna feykifyndið myndband, líkt og venjulega á tónleikum sveitarinnar. Alex Lifeson, gítaristi sveitarinnar, kom svo á svið með gullfallegan Gibson Les Paul með Floyd Rose og byrjaði á Limelight. Lagið er dansvænt, telst vera í 4/4, 3/4 og 7/8, smekklega skipt eftir köflum. Sándið var betra en ég man eftir að hafa heyrt áður á tónleikum og ljósadýrðin jafnaðist - og þarna ýki ég ekki rassgat - á við Pink Floyd eða viðlíka.
Nú, það var ljóst frá fyrstu mínútu að bandið var í fínu formi (eins og allir í laginu) og spilamennskan var hreint ótrúlega þétt. Eftir Limelight kom Digital man, lag sem ég bjóst alls ekki við að þeir tækju. Reyndar var prógrammið mest þannig, mörg lög sem ég held þeir hafi ekki tekið síðan ég bjó í Víðilundinum á Akureyri, en þaðan flutti familían 1980.
Nú, þeir tóku heil 9 lög af Snakes and Arrows, sem er nýjasta afurðin frá þeim og númer gasilljón í röðinni, eins og þeir sjálfir sögðu. Bjóst ekki við svo miklu af þeirri plötu en varð bara kátur að heyra þau lög lífs, en ég hefði getað svarið það við metersháan stafla af Biblíum að bandið hefði spilað þessi lög árum saman, svo þéttir voru þeir.
Einsog segir kom prógrammið verulega á óvart. Ekkert Trees, ekkert 2112, en hinsvegar tóku þeir Circumstances (þá öskraði ég hátt, hoppaði og lét eins og geðveik smástelpa) og svo tóku þeir Passage to Bangkok. Þá missti ég mig endanlega og máttu engu muna að ég missti þvag og saur.
Svo enduðu þeir á Tom Sawyer og YYZ og allir fóru kátir heim, þ.á.m. ég með troðfullan plastpoka af Rush-klæðnaði með stórt samanvafið plaggat standandi upp úr ens og franskbrauð í gamalli bíómynd.
Meira seinna, farinn til Camden.
Athugasemdir
æ hvað er leitt að þú keyptir ekki bleika þvenginn. hefði verið gaman að sjá þig labba í honum í tónabúðinni hihihihihi
rabbabararúna (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 16:55
Guðríður Pétursdóttir, 12.10.2007 kl. 21:08
Mikið skelfing er gaman að það er svona skelfing gaman....
Trausti bróðir.... Jóns (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 22:54
og ég sem ætlaði að gefa þér rush bol í afmælisgjöf. sjitt. sleppi bara afmælinu, það eru hvort sem er að koma jól.
en gott að þetta var gott. góðir tónleikar eru góðir, ef þeir eru góðir...
arnar valgeirsson, 13.10.2007 kl. 00:11
snorri var að spila spirit of radio áðan. rétt fyrir miðnætti. gott hjá honum og þú hlýtur að vera glaður.
nú er það cars. gott hjá honum. ég er glaður og fer i glimrandi fíling að sofa.....
arnar valgeirsson, 14.10.2007 kl. 00:18
Þá ert þú búinn með þína ferð til Mecca og til hamingju með það. Nú getur þú dáið hamingjusamur ekki satt?
Haukur Nikulásson, 14.10.2007 kl. 22:12
Þetta hefur verið tilbeiðsluhátíð hjá Ingvari frænda. Sé hann fyrir mér á hnjánum, jafnvel fjórum fótum eins og...
Ágúst Böðvarsson, 14.10.2007 kl. 22:36
Já, Gústi minn, þú hefur gaman af að ímynda þér mig á fjórum fótum... uss, uss, uss - veit Vörður af þessu?
Haukur, ég reyndar dó næstum því í London, enda alltaf horfandi í rétta átt áður en labbað var yfir götu. Bévítans tjallarnir keyra svo bara vitlausu megin á stóru strætóunum sínum. Skrýtið lið.
Arnljótur, gleður mig mjög að heyra hvursu mikill schmekkmaður Snorri er. Kemur samt ekki á óvart, við hlustuðum saman á Rainbow í gamla daga. Annars máttu alveg gefa mér Rush-bol í ammælisgjöf, ég á bara tvo sem passa og svo einn sem passar á mig þegar ég verð feitari.
Ingvar Valgeirsson, 15.10.2007 kl. 11:00
Jú, ég sá þá - þú ekki!
:)
Ingvar Valgeirsson, 15.10.2007 kl. 22:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.