15.10.2007 | 14:24
Drím þíatör
Nú, laugardagurinn var hress. Eftir eilítið djamm á föstudagskvöldið, hvar ég fann Davíð fyrrum vinnufélaga minn, var svolítið erfitt að drullast á lappir á laugardeginum. Svaf bara fram að hádegi og fór svo á röltið að skoða Lundúnahrepp nánar. Keypti skó í massavís, eitthvað af geisladiskum og dvd, hundraðmilljón boli og talsvert af öðru krappi, bæði fyrir mig og aðra.
Nú, við fjórmenningarnir í ferðinni hittumst svo einhverntíma seinnipartinn og fórum upp að Wembley Arena. Það var langt frá því að vera jafnmikil örtröð þar þá og miðvikudaginn áður, enda Dream Theater alls ekki jafn merkilegt og alyndislegt band og Rush, sama hvað hver segir. Miklu færri svartamarkaðsbraskandi miðasalar, færri tónleikagestir og fleiri í bolum merktum Rush en Dream Theater.
Eníhjú, meðan Synphony X, þrautleiðinlegt band, var að hita upp hitti ég Kidda nokkurn, gítarleikara og barþjón í hjáverkum. Hann var einmitt staddur í Naustkjallaranum þegar atburður, sem sagt er frá fyrir nokkrum bloggfæslum síðan, átti sér stað. Við hlógum mikið að því.
Nú, svo byrjuðu Dream Theater og það af krafti. Þekkti reyndar ekki nema kannski þriðjung laganna, en hafði gaman af. Voðalega mikið runk en skemmtilegt. Salurinn var reyndar minnkaður mikið, eins og gert er þegar ekki er uppselt. Vídeósjó og ljósasjó, en einhvernvegin hálfglatað þegar maður hafði rétt nokkrum dögum áður orðið vitni að þegar Evrópumet í flottu sjói var slegið í sama sal. Skemmti mér samt þrælvel, enda ekki hægt að setja nokkurn skapaðan hlut út á spilamennskuna. Þeir smelltu broti af Pink Floyd-lagi inn í eitt laga sinna við talsverðan fögnuð viðstaddra, svo part af mínu uppáhalds Marillion-lagi, Sugar Mice, og tóku svo, við óheyrilegan fögnuð sumra viðstaddra - aðallega mín - brot úr Cygnus X-1 með Rush í byrjun uppklappslagsins, sem ég man alls ekki hvað heitir.
Að öðrum meðlimum ólöstuðum fannst mér Jordan Rudess, hljómbyrðill sveitarinnar, eiga besta leik þeirra DT-manna. Kom t.d. fram í einu lagi með "key-tar", eða hljómborð í gítaról... eða þannig. Hjá öllum öðrum hefði þetta verið glatað - en gekk upp hjá honum. Hann var með flennistórt Korg Oasys-borð á snúsnú-standi og einhver fleiri borð við hendina og fór fullfimum fingrum um borðið. Ótrúlegt kvikindi. Gítaristinn, John Petrucci, er jú mikil gítarhetja og olli ekki vonbrigðum. Var með hreint ógeðslega fallegan Music Man, John Petrucci signature módel að sjálfsögðu. Þeir framleiða fyrir hann bæði 6 og 7 strengja módel og var 7 strengja tekinn til notkunar annað veifið með tilheyrandi jarðskjálftakippum.
Hvað um það, svo fórum við Davíð, sem einmitt á eitt stykki John Petrucci-gítar, í bæinn ásamt fleirum. Fundum ekki Club 49, hvar við höfðum alið manninn kvöldið áður, og enduðum því á einhverri subbubúllu. Flúði ágang lauslátra Lundúnakvenna og fór heim á hótel og skildi unglingana eftir í solli SoHo-hverfis.
Nú, svo fór gærdagurinn í að túristast. Skoða höllina hans Lindsay Buckingham, kaupa nokkrar bækur, kaupa aukaferðatösku undir allt draslið sem ég var búinn að kaupa - og svo kaupa meira drasl til að taka með í handfarangur.
Varð svo obboslega glaður á heimleiðinni þegar ég las í erlendu fagtímariti að Gibson hefðu beðið Alex Lifeson, gítarista Rush, um að fá gamla Gibson ES-335-gítarinn hans til mælinga og skoðunar. Þeir vilja víst framleiða signature-módel - þá neyðist ég til að fá mér Gibson.
Kom svo heim í nótt með troðfullar töskur og poka af áfengi, nammi og nýjum skóm á mig og Eldri-Svepp (sem hefur líka viðurnefnið Prótótýpan).
Þessi utanlandsferð var hin skemmtilegasta í alla staði og skal ég glaður niðursjóða á mér þrjár tær til að sjá Rush aftur hið snarasta... eða bara á næsta túr, þegar og ef af honum verður. En ég er búinn að sjá Rush, uppáhaldshljómsveit mína til rúmlega tveggja áratuga, á tónleikum núna. Til hamingju, ég sjálfur.
Athugasemdir
Amen! Takk fyrir skemmtilega ferð :-)
Kristján Kristjánsson, 15.10.2007 kl. 19:05
Nei, þakka þér!
Ingvar Valgeirsson, 15.10.2007 kl. 22:17
Ég er að fara að horfa á 3 þáttinn í seríu 2 af Dexter.. svo til hamingju ég sjálf..
Nei annars, þetta jafnast víst ekki einu sinni á við flugferðina út..
En samt til hamingju við bæði með ekki sama hlutinn
Guðríður Pétursdóttir, 15.10.2007 kl. 22:46
Mér lángar að sjá Dexter seríu tvö!!!
Ingvar Valgeirsson, 15.10.2007 kl. 23:04
Guðríður Pétursdóttir, 16.10.2007 kl. 20:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.