17.12.2007 | 21:41
Jamm...
Mikið óskaplega nenna menn að rífast um trúmál hér á blogginu. Æði margir skrifa hvað eftir annað fleiri hundruð orða greinar til þess eins að rita svo æ ofan í æ jafnlöng svör við misgáfulegum, jafnvel misdónalegum, kommentum lesenda. Jafnvel að maður hafi séð eitthvað á þessa leið: "Guðspjöllunum ber ekki algerlega saman um alla atburði. Því er u.þ.b. óhætt að úrskurða Biblíuna rugl frá upphafi til enda".
Ef til dæmis fjórir samferðamenn Davíðs Oddssonar (er ekki að líkja honum við Jesú, bara taka dæmi) myndu skrifa sögu hans, hver í sínu horni... ætli sögurnar, tímaröðin og smáatriðin stemmdu upp á hár? Held ekki - en það þýðir ekki að hann hafi aldrei verið til eða að frásagnirnar séu haugalygi og uppspuni allar sem ein.
Eins er hálfsorglegt að sjá þegar sumt trúað fólk telur það sjálfsagðan hlut að þjóðin í heild sinni deili skoðunum þeirra eða fer fram úr sér í öfgum í eina eða aðra áttina. Það er ekki sjálfsagður hlutur að fólk trúi á tilvist Guðs, reyndar þarf eflaust netta geggjun til. Sjálfur er ég svo heppinn að vera haldinn nettri geggjun, þrátt fyrir að Guð sé kannski ekki alveg jafnánægður með mig og ég með hann alltaf... eða þannig.
Annars er jólastressið ekki búið að ná mér, er tiltöulega rólegur þrátt fyrir að gjafirnar séu ekki komnar á hreint, matseðillinn ekki til, jólafötin óhrein eða ókeypt, íbúðin hálfpartinn á hvolfi, fullt af spileríi enn ógreitt, geymslan í rúst, ég sé hálfveikur og sjónvarpsdagskráin ömurleg. Jafnvel að mér finnist á "Þú komst með jólin til mín" með Bó og Ruth Reginalds hljómi oftar en venjulega (mest óþolandi jólalag veraldarsögunnar) og líka "Jólin eru að koma" með Í svörtum fötum (næstmest óþolandi jólalag veraldarsögunnar) er ég hress. Hugga mig við að litla stelpan sem syngur "Skín í rauða skotthúfu" til að auglýsa Egils hefur alveg farið framhjá mér þennan desembermánuð. Er kannski hætt að sýna auglýsinguna?
Almennur friður og stressleysi hellist út um eyrun og nef og vellíðanin er þvílík að annað eins fyrirfinnst ekki nema með þartilgerðri kemík, sem er líklega ólögleg. Fílingur bara.
Bið að heilsa (eftir Inga T.).
Athugasemdir
Get alveg sagt þér það stax að hann þarna uppi er þokkalega ánægður með þig fyrst þú ert ekki að tapa þér í jólastressinu. ég er svo róleg yfir þessu öllu saman að ég bara bora í nefið og plokka undan tánum og hlæ að öllum sem eru að farast úr stressi hlaupandi á milli búða í leit að hinni fullkomnu og rándýru gjöf. heyrði auglýsingu í vikunni ,,frábær gjöf, gleðjið og gefið heitan pott" iss gefa fólkinu bara fiskikar eða einn á hann
júlekveðje frá mér um mig
RabbabaraRúna (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 01:13
ja það þarf m.a.s ekki nema tvo til að frásögnin verði gjörólík samanber Davíð og Hrein og dæmisöguna um vínberin í London hér forðum
Grumpa, 18.12.2007 kl. 23:38
hlusta bara á bjölluhljóminn með áströlsku-skosku léttsveitinni AC/DC og maður kemst í þvílíkan fíling
arnar valgeirsson, 19.12.2007 kl. 00:18
Jamm, óþolandi jólalög. Mér finnst reyndar Brooklyn Five lagið ansi fínt svo miðað við mörg önnur T.d. finnst mér "Leppalúðalagið" með Ladda sem spilað er núna á Rás 2 í gríð og erg algjört sorp. Tala nú ekki um "Have yourself a merry little christmas" með söngkonunni úr Pretenders. Þvílík nauðgun á annars bráðfallegu og klassísku jólalagi. Og ". það heyrast jólabjöllur og bla bla ... " með henni Önnu Mjöll, alveg hræðilegt.
Svo eru reyndar önnur sem eru frábær en ég nenni ekki að fara útí það að svo stöddu. Kannski bara í næsta kommenti.
Stefán Örn (IP-tala skráð) 19.12.2007 kl. 03:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.