31.5.2008 | 13:15
Innsent efni
Nú, lítið að frétta enn. Mig langar samt að þakka Einari fyrir höfuðin, sem hann sendi mér. Plastfatið var líka fínt og kemur í góðar þarfir.
Eníhjú, rakst á innsent bréf frá lesnda í Mogganum í gær. Best að skrifa það upp, því ég er hress og hef smá frítíma.
"Frá Tryggva P. Friðrikssyni
Fyrir margt löngu las ég frásögn af því að í Sovétríkjunum gömlu hafi verið harðbannað að hafa símann ofan á ísskapnum. Slíkt athæfi átti að gera það erfiðara fyrir yfirvöld að hlera símana. Ekki svo að skilja að munaðarvara af því tagi hafi verið almenningseign í því ágæta ríki.
Skrifari ætlar ekki að afsaka hleranir, síst af öllu hafi þær ekki verið fullkomlega löglegar. Hann rámar hinsvegar í að Kjartan Ólafsson og einhverjir félagar hans hafi barist fyrir því að koma hér á þjóðfélagi að sóvéskri fyrirmynd. Eins og síðar kom í ljós hefði það trúlega kostað þjóðina almennar símahleranir, fangelsanir, þrælabúðir, spillingu yfirvalda, jafnvel aftökur, svo og almenna fátækt og örbirgð, ef marka má reynsluna frá hinum ýmsu "sæluríkjum" kommúnista. Ég er þó ekki að segja að Kjartan og félagar hafi viljað þjóðinni svo illt, en þeir voru í besta falli það sem kallað var "nytsamir sakleysingjar".
Nú þegar Austur-Evrópuþjóðirnar hafa brotist undan oki kommúnismans og sannleikurinn komist í ljós um ofangreind atriði, finnst mér eðlilegt að náð verði sögulegum sáttum í íslenska hlerunarmálinu. Sættirnar gætu falist í því að Kjartan Ólafsson og félagar biðji íslensku þjóðina undanbragðalaust afsökunar á að hafa ætlað að þröngva kommúnisma upp á hana. Í kjölfarið, en varla fyrr, geta þeir farið fram á afsökunarbeiðni frá íslenskum stjórnvöldum, sem á sínum tíma reyndu eftir megni að verja lýðræðið í landinu."
Svo er bara að vona að Steingrímur J. hafi lesið Moggann í gær. Vona líka að ég sé ekki að gera eitthvað ólöglegt með að birta bréfið hér, en mér fannst það bara svo skemmtilegt að ég varð.
Á sömu síðu er svo svar Björns Bjarnasonar við opnu bréfi Sóleyjar Tómasdóttur. Það er líka skemmtileg lesning.
Annars er ég spenntur maður. Þó hress. Horfði á Outlaw í gær, bresk spennumynd með Sean Bean, Danny Dyer (sem lék í hinni bráðskemmtilegu Severence) og Bob Hoskins. Ekkert Hollywood-neitt, mikið ógeð og mæli ALLS EKKI með henni fyrir óléttar konur. Mæli hinsvegar sterklega með henni fyrir alla aðra sem náð hafa tilskildum aldri og þola ljótt í bíó.
Sofnaði svo yfir The Fog. Klára hana seinna, en ég sá hana í bíó þegar ég var tólf ára. Man ekki mikið eftir því en man að mér þótti hún góð. Smekkur minn hefur hinsvegar breyst allnokkuð frá þeim tíma, bæði hvað varðar tónlist, bíó, fatnað (mér finnst til dæmis ekki í lagi núna að ganga um í gallabuxum með uppbrettar skálmar) og æði margt annað - þó svo sumir segi að ég hafi lítið þroskast síðan á þessum tíma.
Lifið heil - verð vonandi með merkilegri fréttir næst.
Athugasemdir
Þú hefur ekkert þroskast á þessum árum Ingvar minn alltaf sami rugluhesturinn
knús
rabbabararúna (IP-tala skráð) 31.5.2008 kl. 17:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.