7.3.2007 | 11:16
Nú?
Þá er nú aldeilis ljómandi að hafa yfirgefið gamla staðinn og vera kominn hingað. Hér er t.d. hægt að skrifa fleiri en tvö orð án þess að eyða deginum í pirr, leiðindi og öskur vegna liðlegheitaleysis bloggþjónustunnar. Gaman að því.
Eníhjú, hér sé pistill sem ég kom ekki inn á bloggerinn... meira seinna.
Í sunnudagsþynkunni ákváðum viðhjónin að kynna okkur menningu og listir í Reykjavíkurborg. Tókum við því Litla-Svepp með og stormuðum í leikhús, hvar við börðum augum, sem og eyrum, hið mikilfenglega ádeilustórvirki Karíus og Baktus. Verkið fallar á róttækan hátt um tvo bræður, sem njóta þess að kvelja börn og valda þeim líkamlegu tjóni. Verður græðgin þeim að falli í lok verksins og er þá ekki laust við að áhorfandinn skilji sjónarmið bræðranna og finni hjá sér samúð með þeim, þrátt fyrir illt innræti þeirra. Verkið er vel skrifað og beinskeytt, og fær neyslusamfélag nútímans á baukinn. Verkið, þrátt fyrir að vera komið til ára sinna, á vel við í dag sem endranær og stóðu leikarar sig vel. Einna helst að ég saknaði Helga Skúlasonar í hlutverki sögumanns, en það hlutverk er nú í höndum sonar hans, Skúla. Sá lék einmitt fórnarlamb bræðranna, Jens (ekki Guðmund) hér í eina tíð, en það hlutverk er nú í höndum sonar Skúla, þannig að segja má að hlutverk verksins gangi að hluta til í erfðir.
Tónlistin hefur verið færð meira inn í nútímann til að boðskapur verksins nái betur til ungdóms dagsins í dag. Sumir hafa talið það helgispjöll, en ég vil segja að þarna helgi tilgangurinn meðalið. Það er hið góðkunna norðlenska póstpönktríó 200,000 naglbítar sem sér um bítlið í verkinu. Skemmtilegt í ljósi þess að naglbítar voru einmitt notaðir af tannlæknum hér í eina tíð. Vinna þeir þremenningar verk sitt vel og af fagmennsku og smekkvísi, enda ekki von á öðru af þeim.
Eitt fór þó í taugarnar á mér og verður að telja sem stór mínus, en það eru bæði tannbustinn og borinn. Þeir eru túlkaðir með ljósum, reyndar ágætlega, svo langt sem það nær. En þegar maður hefur séð gömlu uppfærsluna í sjónvarpinu, hvar tannburstinn er bara risastór tannbursti og borinn bara risastór bor, þá virkar þetta heldur hjákátlegt. Eflaust er þetta gert til að halda kostnaði í lágmarki og ber að virða það, bæði hjálpar það til að efnaminna fólk og eymingjar geti leyft sér að líta í leikhús og einnig að það dregur úr þörf á opinberum styrkjum til svokallaðra listamanna, sem allt ætla lifandi að drepa. Samt hefði ég glaður borgað ögn meira til að sjá alvöru risatannbursta skola þeim bræðrum á vit örlaganna.
Allt um það, fyrrakvöldið fór svo í að horfa á ævintýramyndina Librarian 2 - Return to King Salomon´s Mines. Hún er skylduáhorf fyrir þá báða sem séð hafa Librarian - Quest for the Spear. Alveg hræðilega vondar, en bráðskemmtilegar, ævinatýramyndir, hvar raunveruleikinn er látinn sigla lönd og leið.
Sá svo og heyrði Stranglers á NASA í gær. Meira um það ögn síðar.
Athugasemdir
jæja, þú ert búinn að vera duglegur strákur á blogginu, þó auðvitað sé þetta mestmegnis bull og vitleysa, pólítiskar ranghermingar og ranghugmyndir af ýmsustu sort. Þú átt þó fallegar fjölskyldu, sem kemst þó aðallega að vegna ölvunar eða krankleika þessa dagana en þegar tjellingin er orðin lasin og börnin á bylleríi þá hættirðu að blogga...
Vona að þú sért ánægður að vera kominn undir verndarvæng Styrmis og flokks þíns í heild, sem hefur þó gert eitt gott á undanförnum árum, og ofkors auðvitað heilmargt ótrúlega slæmt, en það er að koma upp þessu bloggi til að maður eyði nú frítíma í annað en þrif, lestur góðra bókmennta eða eitthvað annað uppbyggilegt.
Jamm, settu eitthvað inn um Stranglers, þeir eru sko kúl. Mundu svo að bursta í þér tennurnar því annars sofa þær í glasi bráðum á náttborðinu.
Og á moggabloggi megi oft og lengi verða skrifað og sagt:
Lifi byltingin. Lifi Steingrímur. Lifi vinstri-grænir.
AV
arnar valgeirsson, 7.3.2007 kl. 11:47
VG, sem og yfirstrumpurinn þar á bæ, Steingrímur Joð, mega lifa mín vegna - svo lengi sem þau komast ekki til valda.
Takk annars fyrir síðast, gaman að sjá aldraðan bróður sinn á fimmtugsaldri á kafi í smápíu...
Ingvar Valgeirsson, 7.3.2007 kl. 13:29
sendi þér aftur blog kvikmyndanjarðarins Hrannars, sem er ekki vinstri grænn en skrifar um bíó, fótbolta, skák og stjórnmál.
http://don.blog.is/blog/don/
AV
arnar valgeirsson, 7.3.2007 kl. 16:10
jahá . . bara flúinn hingað . . ekki viss um að ég fíli þessa síðu hjá þér eins vel og þá gömlu . . maður er svo vanafastur sjáðu.
til hamingju samt . .
G.S.
Gauti (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 21:32
Hæ hæ Ingvar. Innilega til lukku með nýju síðuna. Hún er sæt sem þú. :)
Þó að eilítið íhald innra með mér eigi eftir að sakna gamla röflsins, þá er alltaf gaman að breyta til. Hlakka til að halda ótrauð áfram að fylgjast með hér.
Agnes mín (rétt tæpra 4 vetra) fór á Karíus og Baktus með pabbasín og hún hefur varla sleppt tannburstanum síðan. Íþróttaálfurinn + Karíus og Baktus = Fullkomin börn.
Kveðja, Olga Björt
Olga Björt (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 22:03
Kæra Olga. Gamla röflið sem þú segist munu sakna verður bara nýtt röfl þannig að þú ert í góðum málum. Vona að hin hvíttennta Agnes þín fari flikkflakk og heljarstökk með glans, alla daga nema laugardaga því þá er nammidagur. Sem Ingvar reyndar tekur út sem brennidag.
Og til hamingju með síðuna, bróðurómynd, hún er jafnsvört og sál þín, sem og hin gamla. ég skellti á sínum tíma upp einni en nenni ekki að halda henni úti, var hún þó fagurrauð og smekkleg.
arnar valgeirsson, 7.3.2007 kl. 22:48
Tíhí, Arnar fyndinn.
Olga Björt (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 22:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.