Gítarar

Nú, hann Ómar snæddi kvikmyndagetraunina mína í morgunmat, en það var einmitt Sir Mick Jagger sem spurt var um. Gaman að því. 

Hvað um það, við feðgar, ég og Litli-Sveppur, liggjum heima með hita og leiðindi. Ekki nóg með það, heldur er Escorinn okkar, Bláa þruman, á bílastæði úti í bæ, líklega með bilaðan alternator. Ekki hressandi, en gæti verið verra - ég gæti verið holdsveikur.

Hvað um það, ég var að hugsa um alla gítarana sem ég hef átt. Geri mér engan veginn grein fyrir hversu margir þeir eru, en það er bévítans hellingur. Ég er nefnilega haldinn græjufíkn, sem telst vera 0,4 Ingvöl (Skalinn er kenndur við hinn alræmda græjufíkil Inga Val, sem á græjusafn sem jafnast á við lager Tónabúðarinnar).

Þetta byrjaði allt saman fyrir 21 ári síðan þegar ég keyti mér Westone rafgítar í Tónabúðinni á Akureyri. Hafði reyndar farið í nokkra tíma í klassískum gítarleik í Tónlistarskólanum, en kennarinn náði einhvernvegin að gera gítarinn mest óspennandi hlut í heimi fyrir mér. Sýndi mér það að það á aldrei að láta eitthvað listahyski kenna unglingum. Ekki kunni ég því mikið, eiginlega ekki rassgat og eina ástæðan fyrir því að ég keypti gítar var sú að ég hafði ekki efni á hljómborði. Lærði eitthvað eins og tvo hljóma áður en ég skipti upp í Ibanez-gítar um ári síðar. Átti hann í eitt ár áður en ég seldi hann Halla frænda mínum á alltof lítinn pening, en það fé notaði ég til að kaupa mér Gibson SG. Sá andaðist í hræðilegu rokkslysi í Hrísey eftir ár í minni eigu. Fór í varahluti í nokkra aðra gítara. Þá eignaðist ég amerískan Stratocaster, svo Kramer Baretta, sem hafði eitt pickup, einn volumetakka og sveifarkerfi Satans (Floyd Rose). Keypti hann bara af því að Eddie Van Halen notaði slíkt tól á þessum tíma.

Þegar hér er komið við sögu er árið 1991. Ég var örlítið farinn að spila opinberlega, meðira af áhuga en getu. Fékk inni í hljómsveit með Hauki frænda, Gústa frænda og Sigga Ingimars, þeim hinum sama og tapaði nýverið í X-Factor svo frægt varð. Þá þótti mér tilvalið að kaupa mér Fender Strat ´57 reissue, sem var líklega dýrasti gítarinn í Tónabúðinni á þeim tíma. Átti reyndar ólétta kærustu, var með uppsagnarbréf í vasanum þar sem skóverksmiðjan sem hafði mig í vinnu var að fara á höfuðið og borgaði ekki krónu út í hljóðfærinu. Var svo varla búinn að borga hann þegar ég bætti öðrum Strat í safnið, japönskum með Floyd Rose. Setti þann svo upp í Schecter, sem var enn dýrari en Fenderinn hinn fyrri. Varð bara að eignast svoleiðis, bara af því að Alex Lifeson notaði svoleiðis. Kannski líka af því að hann var ógeðslega góður. Síðan þá hafa tugir gítara farið gegnum safnið góða, sumir ómerkilegir og aðrir sem ég græt svo til daglega.

Top 10 listinn - hljóðfæri sem ég sé eftir.

10. Gibson SG, sem ég braut ´89 í Hrísey City.

9. Fender ´57 reissue. Hann ætti að vera ofar á listanum, en hann er í góðum höndum í dag.

8. Washburn Steve Stevens signature. Keyptur á helmingsafslætti í Hljóðfærahúsinu ´96 og seldur af tómum hálfvitaskap tveimur árum seinna.

7. Ovation kassagítar, japanskur. Fyrsti kassagítainn minn, seldist reyndar á fínu verði.

5-6. Schecter Traditional, tvö eintök. Get ekki gert upp á milli þeirra. Átti annan þeirra æði oft, áður en hann endaði hjá Viktori Steinars. Hinn var ólakkaður alveg og hreinn draumur að spila á. Seldi Vigga í Írafári hann til að eiga fyrir ferð til London að sjá Duran Duran fyrir þremur árum síðan.

4. The Heritage Les Paul. Smíðaður í gamalli Gibson-verksmiðju og alveg langbesti Les Paul sem ég hef prófað.

3. Steinberger Trans Trem. Rándýr gítar, en ég fékk hann einmitt í skiptum fyrir áðurnefndan Heritage. Þessum gítar var stolið ´98 úr æfingarhúsnæði í Kópavogi. Hann er svartur, með Trans-Trem (sveifarkerfi, sem gerir manni kleift að færa gítarinn milli tónhæða), hauslaus og með litlum Strat-laga búk. Vegleg fundarlaun.

2. Music Man Axis. Gríðarfallegur, sunburst-litaður með tveimur P-90 pikköppum. Tær dásemd. Hann er nú í eigu Heiðu, sem oftast er kennd við Unun.

1. Toppsætið vermir annar Music Man Axis, bara ögn dýrari týpa. Skipti einmitt þeim áðurnefnda Axis upp í þennan, sem er með tveimur DiMarzio hömmbökkerum og glæsilegum flame maple-toppi. Fallega rauður og reyndar í alla staði stórglæsilegt hljóðfæri, enda var kerlingin alveg brjáluð að ég skyldi láta hann frá mér. Eignaðist reyndar í staðinn enn annan Music Man, Steve Morse signature módel, sem ég hef átt í þrjú ár. Hef sama og ekkert notað aðra rafgítara, þrátt fyrir að hafa átt nokkra góða á meðan.

Það var allt, snæðið möl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Skemmtileg grein hjá þér og upptalning Ingvar. Ég ætla að fylgjast með þér. Ég deili nefnilega með þér græjudellunni. Því miður nenna fáir slíkir að skrifa um græjurnar sínar, eru nefnilega of uppteknir við að fikta í þeim!

Fór að rifja upp eigin gítaraeign frá 1967: Gamli kassagítarinn hennar mömmu (ennþá í kjallarageymslunni), Rauður Hohner rafgítar (plataður inn á mig, var ónýtur og fleygt fljótlega), Gibson ES335 (keyptur af Tryggva Hübner - frábær gítar, seldi hann), EKO kassagítar (þungur og erfiður - ennþá í minni eigu), Fender American Strat með EMG aktívum pickupum - var stolið frá mér í innbroti), G&L (George and Leo) Legacy keypti glænýjan og lét setja Kinman pickup í hann og nota mikið) og síðast en ekki síst keypti ég glænýjan Ovation Elite 1868 sem ég nota mest nú orðið og er í sérstöku uppáhaldi.

Haukur Nikulásson, 12.3.2007 kl. 11:10

2 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Aha - seldi ég þér Ovationinn í búð Tóna?

Ingvar Valgeirsson, 12.3.2007 kl. 11:40

3 Smámynd: Haukur Nikulásson

Sorrý, nei, keyptur hjá www.theguitarfactory.com. Ég vissi ekkert af ykkar umboði þá fyrir ca. þremur árum síðan. Stuttu síðar keyptum við fyrir strákinn minn Ovation Celebrity (ódýrari týpu framleidd í Kóreu hjá www.music123.com) og verðmunurinn er allur auðfinnanlegur. Verðlagningin í Tónabúðinni er mjög ásættanleg miðað við það sem ég sé. Fólk sem ber saman verð hér og í USA gleymir því að fyrirhöfnin, flutningskostnaður, virðisaukaskattur, virk og lengri ábyrgð og þjónusta er inni í verðum ykkar. Þetta er oft stórlega vanmetið þegar rokið er til að panta.

Haukur Nikulásson, 12.3.2007 kl. 12:22

4 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Jú, það eru ekki allir sem átta sig á þessu. Mér fannst til dæmis gaman eitt sinn er maður inn kom í búðina og var að tala um Vox-magnara, sem hann hafði keypt að utan. Kom í ljós að hann hafði borgað 30,000 kr. meira en magnarinn kostaði í búðinni, auk þess sem hann þurfti rándýran spennubreyti því gripurinn var auðvitað 110 v.

Vissulega er oft ódýrara að kaupa af netverzlunum, en ég vil heldur hafa þjónustu, ábyrgð og skilarétt. Af sömu ástæðu vara ég fólk við að kaupa hljóðfæri í stórmörkuðum, hvar starfsmenn kunna sjaldnast að stilla innbyrðis eða stilla afstöðu á hálsi og þvílíkt.

Langbest tel ég að sjálfsögðu að kaupa eitthvað sem allra dýrast í búðinni sem ég vinn í.

Ingvar Valgeirsson, 12.3.2007 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband