Páskaeggjahræra

Stalst í páskaegg, þó enn sé einn dagur í páskadag. Fékk málsháttinn "Oft er atviksorð".

Var að skoða Fréttablaðið, hvar síðustu kosningaloforð stjórnarflokkanna eru tekin til skoðunar, sem og hvort við þau hafi verið staðið. Af fjörtíu loforðum hefur verið staðið við sautján. Veit ekki hvort það er mikið eða lítið miðað við venju, en mætti segja mér að oft hafi það verið verra.
Rak hinsvegar augun í að eitt hinna óuppfylltu loforða var "ÁTVR verði lagt niðurog eignir þess seldar". Oggolítil neðanmálsgrein benti svo á að það hefði verið þingmannamál, sem "stoppað hefði verið af litlum, róttækum flokki", eins og Guðlaugur Þór orðaði það. Eins var talað um sem svikið kosningaloforð að almannatryggingakerfið sæi börnum og unglingum fyrir ókeypis tannskoðun. Illmögulegt núna, þar sem tannlæknar sögðu upp samningi sínum við Ríkið fyrir átta árum og hafa víst ekkert verið sérlega áfjáðir, svo ekki sé sterkar að orði komist, í að koma nýjum á laggirnar.

En ég fór í framhaldi af þessu að hugsa um fréttaflutning almennt. Góður kunningi minn sagði mér fyrir rúmum áratug frá því er hann, sem stafsmaður LÍÚ, fékk símtal frá fréttamanni RÚV. Hann eyddi drjúgum tíma í að tala um fiskveiðikerfið og allt sem því fylgdi og beið því um kvöldið eftir að heyra í sér í útvarpinu. Fréttin kom, með ítarlegu viðtali við einhvern kvótaandstæðinginn, sem fékk að láta móðan mása lengi vel og fór mikinn. Eftir að sá hafði lokið sér af var hlustendum tjáð að þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir hefði ekki náðst í neinn talsmann LÍÚ.

Mundi eftir þessu fyrir nokkru þegar dóttir formanns Íslandshreyfingarinnar tók, sem fréttakona, viðtal við einhveja konu sem var titlaður "erlendur sérfræðingur" í kvöldfréttunum. Sú erlenda fann allt sem maður gat ímyndað sér að Kárahnjúkavirkjun og t.d. það að hún stæði á virku jarðskjálftasvæði. Var það svolítið mikið mál í umræðunni um tíma. Láðist alveg að geta þess að Reykjavík stendur á jarðskjálftasvæði sem er meiri virkni í. Reyndar er landið allt meira og minna eitt jarðskjálftasvæði, ekki satt?

Svo í fyrra var kona að nafni Helga Jónsdóttir, sem sótti um starf borgarritara og fékk ekki. Talað var um brot á jafnréttislögum og fenginn var lögfræðingur að nafni Ragnar Hall í viðtal hjá fréttamönnum, bæði RÚV og Stöðvar 2, og talaði Ragnar um skýlaus brot á jafnréttislögum og sparaði ekki stóru orðin. Hvorki Stöð 2 né RÚV minntust einu orði á að Ragnar þessi rekur lögfræðistofu með bræðrum Helgu Jónsdóttur. Eins, þegar talað var um rétt Ólafs Ragnars til að skrifa ekki undir fjölmiðlalögin hér um árið, var fenginn í viðtal lögfræðingur til að gefa álit sitt. Gleymdist hinsvegar að geta þess að um var að ræða persónulega vin forsetans og mann sem hafði unnið með honum í kosningabaráttunni nokkrum árum áður.

Svona dæmi eru álíka mörg og flugur við Mývatn á góðum sólskinsdegi í júní.

Furðulega gleymnir þessir fréttamenn þegar mikið liggur við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: arnar valgeirsson

Já, væni. Þú býrð í litlu landi. Sniðug dæmi hjá þér, góurinn. En einhvernveginn finnst mér að vinir þínir, sjallarnir, hafi nú dílað og skvílað innanflokks þegar rætt er um hitamál í fjölmiðlum. En það  skiptir ekki máli. Það er sosum vitað að kosningaloforð verða væntanlega ekki efnd og mér finnst nú bara gott hlutfall að hafa staðið við seytján af fjörutíu. En þú veist líka að fullt af kosningaloforðunum sem þínir flokksmenn og þó ekki síður frammararnir, voru bara bévað blöff.

Og eitt skal ég segja þér, þó þú sért ekki heitur fyrir mínum flokk, að mínir flokksmenn hafa ekki, hvorki nú né fyrr, verið að koma með loforð sem vitað er að ekki verði staðið við. Það er m.a. þessvegna sem ég fíla þá. Ekki verið að kaupa atkvæði á fölskum forsendum.  Það er nú t.d. þess vegna sem flokkurinn fékk svo fá prósent síðast en virðist ætla að fá fleiri nú, enda algjörlega treystandi fyrir skútunni. Jebb, habbðu það og oft er atviksorð.

arnar valgeirsson, 7.4.2007 kl. 21:21

2 Smámynd: Haukur Nikulásson

Það fer í taugarnar á okkur að sjá brögðum beitt í fréttaflutningi. Þú ert samt svolítið einlitur í því að týna bara upp dæmi þar sem hallað er á íhaldið í umræðunni. Ég hef samt ekki misst alla von að þú finnir dæmi á hinn veginn.

Syngjum saman O sole mio við tækifæri þá færðu svolítið roða í kinnarnar! 

Haukur Nikulásson, 8.4.2007 kl. 12:07

3 identicon

GLEÐIKONA Í HÁSKA!!!!....nei sorry...gleðilega páska mar

Einar Ágúst (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 15:54

4 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Arnar, það er rétt, að ef engu er lofað er ekkert hægt að svíkja. Fremur mun ég samt bora í sköflunginn á mér en kjósa kommana.

Haukur, það er auðveldara að finna dæmi um svona fréttamennsku hvar hallar á íhaldið, einfaldlega af því að fleiri fréttamenn virðast vera vinstrimenn en hægri. Get þar bent á t.d. Spegilinn, en ef íhaldsmenn kæmu svoleiðis fram í útvarpi er óhætt að segja að allt færi í loft upp. Þegar fréttir hallast til hægri virðist nóg um fólk sem talar um það þó svo ég bætist ekki við.

En gleðilega páska, allesammen.

Ingvar Valgeirsson, 8.4.2007 kl. 22:12

5 Smámynd: arnar valgeirsson

Bróðurómynd. Ekki veit ég afhverju þér er svo illa við spegilinn. Þú hefur malað um hann síðan einhverjir hægridúddar fóru í fýlu yfir einum þætti og vildu últramegahægrróttæka plebba til að sjá um þátt til mótvægis. Þetta er bara gömul lumma og spegillinn er flottur þáttur þar sem útvarpsmenn kynna sér málin ótrúlega vel á ótrúlega stuttum tíma og skjóta sko ekki bara til hægri. Hinsvegar er töluvert talað um bandaríkin og þá er nú bara frítt fram með hægri skot enda bjóða pólítiskir vinir þínir þar upp á það enda greinilega hálfvitar í hópum.

Svo var ég ekki að tala um að mínir menn segðu ekki hvað þeir myndu gera, kæmust þeir í stjórn. ég sagði að þeir lofuðu ekki því sem ekki yrði efnt. Það er munur þar á. Og þó ríkisstjórnin eigi að hafa staðið við (eða þannig lagað) við 17 af 40 loforðum, sem þykir ótrúlega gott, þá er það nú bara ca 40%. Sem þýðir að 60% hafa verið svikin. En sumir komast langt á því að bulla í stað þess að þegja.

arnar valgeirsson, 9.4.2007 kl. 00:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband