8.7.2007 | 15:52
Live Earth
Sá ekki mikð af Live earth í gær, en þó aðeins. Sá Leonardo DiCaprio kynna Al Gore á svið, en Leo talaði þar um að hlýnun jarðar væri aukinni kolefnislosun að kenna. Ég heyrði ekki betur en að hann segði að það væri ekki bara kenning, heldur fullsönnuð staðreynd. Ég reyndar sá fjölmarga vísindamenn í sjónvarpinu um daginn halda allt öðru fram, en það hlustar enginn á þá, því þeir eru ekki voðasæt Hollywoodstjarna.
Ég gat ekki forðast að brosa út í annað þegar ég hugsaði út í alla risastóru koltvísýringsspúandi dísilmótorana, sem voru líklega í yfirvinnu við að framleiða rafmagn fyrir umhverfissinnuðu popparana, sem mættu á koltvísýringsspúandi einkaþotunum og Hömmerunum sínum til að biðja fólk um að hugsa út í náttúruna. Svo fóru þeir glaðir að sofa í gærkvöldi og hugsuðu með sér að nú hefðu þeir gert heiminn betri.
Annars vorum við félagarnir í Swiss að leika á Dubliner um helgina, eins og þá síðustu. Mikið um gesti og gríðarleg gleði sem allt umlukti. Stemmari gríðarlegur.
Hvað um það, miklar gleðifréttir - eitt sinn reit ég lista yfir hljóðfæri, sem ég hafði átt, en asnast til að selja. Á miðjum listanum var að finna Schecter-rafgítar, sem ég hafði átt alls sex sinnum, en einhverra hluta vegna alltaf selt aftur. Keypti hann fyrst fyrir einum fimmtán vetrum síðan í Tónabúðinni á Akureyri, þrátt fyrir að ég væri tiltölulega nýbúinn að kaupa forláta Fender Stratocaster, sem er einmitt á umræddum lista. Stór partur af ástæðunni fyrir því að Schecterinn var keyptur var að ég átti ljósmynd af Alex Lifeson, gítarleikara Rush, hvar hann var á sviði með nákvæmlega eins hljóðfæri. Það þótti mér nægilega góð ástæða til að eyða tvöföldum mánaðarlaunum í gítarinn, þrátt fyrir að ekki væri nein svakaleg innkoma af spilamennskunni á þeim tíma.
Eníhjú, gítarinn hefur undanfarin ár verið á góðu heimili og ég því sáttur við að vita af honum þar. En eigandinn kom með hann til mín í búðina og vildi selja hann. Ég gat ekki hugsað mér að bara einhver Jósafat úti í bæ ætti gítarinn. Því var mér nauðugur einn kostur að kaupa hann og brosa. Sem ég og gerði. Og brosti svo meira.
Þarf reyndar að eyða eilitlum tíma og peningum, ást og umhyggju til gera hann jafngóðan og hann getur orðið. Það verður bara gaman fyrir mig... og Inga Val, sem eflaust endar á að vinna megnið af vinnunni, enda manna klárastur við að lappa upp á lasna gítara.
Ég er því í miklu stuði. En þú?
Athugasemdir
neee
Guðríður Pétursdóttir, 8.7.2007 kl. 17:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.