Blökkumannavonnabí og getraun.

Datt nú rétt í þessu inn á þátt á VH1. Það er þáttur sem heitir The White Rapper Show. Þar er hópur af ungum, hvítum röppurum í einhverskonar útsláttarkeppni. Hálfgert Rappædol. Eitthvað það glataðasta sjónvarpsefni sem ég hef séð.

Hér áður fyrr, þegar ég var ögn agressívari og hrokafyllri maður, hefði ég kannski sagt að þetta bévítans illa gefna hyski hefði greindarvísitölu á við meðalhitastig á Grenivík á Þorranum. Jafnvel hefði ég sagt að þessi viðurstyggilegu heiladauðu ungmenni ættu öll að fara í bræðslu eða nota ætti þau til napalmtilrauna eða landfyllingar við höfnina. Jafnvel hefði ég sagt - kannski réttilega - að þetta væri bókstaflega heimskulegasta og á allan hátt glataðasta pakk sem ég hefði séð í sjónvarpsþætti nokkurntíma. Kannski hefði ég sagt að þetta ógeðfellda drasl léti Geir Ólafs jafnvel líta út fyrir að vera hæfileikaríkur tónlistarmaður.

En nú hefur mér lærst að temja mér jákvæðari hugsunarhátt og almenna auðmýkt. Því vil ég bara segja að þetta fólk í þættinum ætti, allt sem eitt, að selja míkrófónana sína, sækja um vinnu einhversstaðar og reyna að gera eitthvað gott við líf sitt áður en það er orðið of seint - strax eftir sálfræðimeðferðina.

Svo langar mig að skjóta fram getraun. Spurt er um hljómsveit.

Sveitin var stofnuð snemma á níunda áratug síðustu aldar. Upphaflega var hugmyndin að koma aðeins fram einu sinni, en fyrsta spileríið gekk vonum framar og voru þeir því ráðnir aftur á staðinn að spila á öðrum tónleikum ásamt fleiri sveitum úr pönksenu heimaborgar sveitarinnar. Stuttu seinna var skrifað undir plötusamning, sem reyndar gerði það að verkum að tveir meðlimanna þurftu að hætta í sveitinni, enda á samningi við annað fyrirtæki sem meðlimir í annari hljómsveit. Því þurfti að ráða menn í þeirra stað, en það breytti hljómi sveitarinnar mikið.

Reyndar voru mannaskipti ör með tilheyrandi breytingum á heildarhljóm sveitarinnar. Sveitin gaf út nokkrar plötur með síbreytilegum mannskap, en eftir einn túrinn lést einn meðlimurinn sökum ofneyslu á ólyfjan. Annar meðlimur ákvað að hætta í kjölfarið sökum almenns ólifnaðar á hinum eftirlifandi meðlimum sveitarinnar.

Þegar restin hafði þvegið sér í framan og látið renna aðeins af sér var tekið til við að manna lausar stöður. Reynt var að leita aftur til upprunans örlítið og ráða fyrrum meðlim fornfrægrar pönksveitar, en það gekk ekki upp. Að lokum tókst að manna skipið og var ráðist í upptökur og plötugerð. Leiðin hefur legið upp á við síðan og hefur sveitin átt margan megahittarann. Þeir hafa líka gefið út nokkur koverlög og taka stundum vel þekkt koverlög á tónleikum.

Tveir meðlimir hafa leikið í bíó. Annar þeirra hefur m.a.s. leikið í mynd með Charlie Sheen.

Einn fyrrum meðlimur hefur verið talsvert í sjónvarpi. Var t.d. í sjónvarpsþætti sem naut talsverðra vinsælda hérlendis. Sá hefur einnig gefið út bók, hvar t.d. var farið ítarlega út í neyslu hans á ólyfjan.

Fyrrum meðlimir sveitarinnar fylla allavega tug.

Hver er sveitin? Þetta er nú skítlétt...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta gæti verið Red hot Chilli Peppers

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 29.9.2007 kl. 22:53

2 identicon

Ég meina þetta er RED HOT CHILLI PEPPERS

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 29.9.2007 kl. 22:56

3 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Jamm Red Hot Chilli Peppers poppuðu líka upp í hugann :-)

Kristján Kristjánsson, 30.9.2007 kl. 00:33

4 identicon

Hvar er Gauti núna?

Brynhildur (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 08:17

5 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Ég sagði að þetta væri skítlétt. Alveg rétt hjá ykkur.

Ingvar Valgeirsson, 30.9.2007 kl. 22:23

6 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

ég er líka farin að kunna að hemja mig, á samt langt í land enn þar sem ég sé að ég hef sagt töluvert af þessu, sem þú taldir upp, um dagana.. jafnvel bara í gær.. samt ekki um neitt svona "blökkumannavonnabí" (hljómar eins og titill á vögguvísu)

hefði samt verið til í að sjá þetta bara svona til að fá ástæðu til að ausa einhverju svona útúr mér.. fá smá útrás..

Guðríður Pétursdóttir, 1.10.2007 kl. 23:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband