20.10.2007 | 12:29
Kirkjuþing, Gummi Steingríms og fleira...
Vil byrja á að benda á ágætispistil Guðmundar Steingríms aftan á Fréttablaðinu í dag. Pistillinn er við hliðina á JÓLAAUGLÝSINGU Ikea. Guðmundur fjallar um áfengi, neyslu þess og löggjöf þar að lútandi. Gaman að því.
Nú, prestar þinga og samkynhneygðir vilja fá að gifta sig í kirkjum. Hingað til hafa prestar ekki viljað leyfa þeim það, en þetta er líklega samskonar mál og sameining sveitarfélaga - það verður bara kosið og kosið þangað til "rétt" niðurstaða fæst. Þá verður aldrei kosið á ný.
Mér finnst annars skrýtið að Þjóðkirkjan ráði hvort aðrar kirkjudeildir og söfnuðir fái að pússa hina hýru saman eður ei. Ef Þjóðkirkjan telur það ekki rétt á hún að sjálfsögðu ekki að framkvæma slíkar athafnir. En aðrar kirkjudeildir geta verið á annari skoðun, enda hafa menn ekki verið sammála um þetta atriði, svo vægt sé tekið til orða. Mér þætti það hinsvegar alveg jafn slæmt að neyða presta til að framkvæma hjónavígslur samkynhneygðra þvert á vilja sinn ef þeir telja slíkt rangt og finnst það stangast á við trú sína.
Eigum við ekki bara að leyfa Fríkirkjunni og séra Hirti þar á bæ að hirða þennan "markað" og leyfa hinum kirkjudeildunum að hafa sínar skoðanir í friði? Þar með hef ég fundið friðsæla lausn á þessu máli og tek ekki krónu fyrir það. Halelúja.
Annars sofnaði ég yfir Enter the Dragon í gær. Keypti mér revised director´s cut í Lundritz á 3 pund um daginn á útsölu. Fín ræma svosem, örugglega besta Bruce Lee-myndin. Mun betri en mig minnti, en ég var bara svo svakalega syfjaður. Orðinn gamall, sofnaður fyrir klukkan 11 á föstudagskvöldi...
Athugasemdir
gamli gráni:)
rabbabararúna (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 15:26
Þjóðkirkjan hefur ekkert um það að segja hvernig önnur skráð trúfélög hér á landi haga hjónavígslum og öðrum sambúðarformum. Það er furðu algengur misskilningur að þjóðkirkjan standi í vegi fyrir því að önnur trúfélög blessi staðfesta samvist eða taki upp hjónavígslu fyrir samkynhneigða. Innan þjóðkirkjunnar hefur átt sér stað mikil umræða á þriðja áratug um samkynhneigð, staðfesta samvist og hjónaband þar sem leitað hefur verið leiða að ná samkomulagi milli ólíkra sjónarmiða og er góður möguleiki á því nú að hægt verði að finna lausn sem flestir aðrir en heitustu harðlínumenn á hvorum enda geti sæst á. Umræðurnar innan þjóðkirkjunnar á liðnum þremur áratugum endurspegla mikið til þá hugarfarsbreytingu sem hefur átt sér stað meðal landsmanna í málefnum samkynhneigðra og hafa samkynhneigðir svo sannarlega átt eindregna stuðningsmenn úr röðum þjóðkirkjupresta og guðfræðinga hennar sem talað hafa máli þeirra, svo sem sr. Ólaf Odd Jónsson og dr. Björn Björnsson prófessor. Á níunda áratugnum sætti þjóðkirkjan sérstaklega harði gagnrýni á opinberum vettvangi frá einkum ýmsum öðrum trúfélögum fyrir of umburðarlynda afstöðu til samkynhneigðra. Þótt stjórnmálamenn kjósi að bíða eftir ákvörðunum þjóðkirkjunnar hvernig hún komi til með að haga þessum málum innan sinna raða er ekki við hana að sakast heldur þá ef önnur trúfélög fá ekki þær heimildir sem þau sækjast eftir. Og að sjálfsögðu tekur tíma fyrir jafn stórt trúfélag eins og þjóðkirkjuna að ná samkomulagi um siðferðilegt álitamál sem áður fyrr var mikið til forboðið og er enn víða um heim. Þjóðkirkjan er ekki alræðisstofnun þar sem einn eða örfáir einstaklingar taka ákvarðanir í eitt skipti fyrir öll án samráðs við nokkurn annan. Það skiptir máli því máli hvað jafnt leikmenn sem vígðir starfsmenn kirkjunnar hafa um málið að segja og þurfa umdeild mál að fara í gegnum ákveðið ferli til þess að hægt sé að taka sem best á þeim og ná sem víðtækastri sátt.
Bjarni (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 16:23
þetta var nú aldeilis greinargott og ítarlegt svar, bjarni. hafðu þökk fyrir.
en gaman að heyra að þetta málefni skuli liggja svona þungt á þér ingveldur, meðan þú horfir á bruce hálfberann að berja mann og annan.
en það hélt þó ekki fyrir þér vöku....
arnar valgeirsson, 20.10.2007 kl. 23:32
Gummi Steingríms er náttúrulega bara snillingur! Annað en merkikertið forveri hans í "Varaborgarstjóraembættinu" "JK Snefjel"!
SAmmála!?
Magnús Geir Guðmundsson, 21.10.2007 kl. 22:10
Þakka þér fyrir, Bjarni. Þú ert jú manna fróðastur um Guð og hans málefni. Jú, það er verulega asnalegt að önnur trúfélög þurfi að bíða eftir ávörðunum kirkjunnar. Enn asnalegra af því að það leggur enn meiri pressu á kirkjuna að ganga gegn sannfæringu sinni til að þóknast almenningsálitinu. Eins og ég segi - leyfa Hirti Magna að hirða markaðinn og málið dautt.
Magnús - ekki veit ég hvort Gummi er snillingur, en hann á marga verulega góða punkta. Með þessum góðu punktum er hann alveg að verða búinn að laga vont karma vegna sjónvarpsþáttanna á Sirkus fyrir fáum misserum. Hef alveg trú á honum sem pólítíkus, virðist nokkuð traustur.
Ingvar Valgeirsson, 21.10.2007 kl. 22:46
Mér finnst stráksi fyrst og síðast skemmtilegur og afskaplega fjölhæfur. Ekki alveg sammála þér um þáttin á Circus, en látum það nú vera. SVo er hann déskoti blandaður karakter gamla og nýja tímans, spilar á nikku og er hagmæltur (mér finnst reyndar hvorugt neitt gamaldags,en mörgum finnst það!) en er svo nútímatöffari af bestu sort og hefur verið einn aðalsperðillinn í framsækinni hljómsveit!Fyrir utan allt hitt svo sem honum virðist til lista lagt!
Magnús Geir Guðmundsson, 23.10.2007 kl. 18:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.