6.8.2008 | 08:35
Ammælis
Viddi bróðir á ammæli í dag, sem og Hírósíma-sprengingin. Til hamingju, Viddi.
Kerlingin átti svo ammæli í gær. Er búinn að óska henni til hamingju.
Annars kveikti ég bara á tölvunni til að segja frá einu skemmtilegu. Ég nebblega vaknaði áðan og kveikti á sjónvarpinu. Á MGM-stöðinni er verið að sýna verstu mynd sem ég hef séð. Hún heitir The Dungeonmaster og slær einhverskonar met. Þegar ég kveikti voru einhverskonar galdrakarlar að keppa í göldrum, svo kom sverðabardagi og galdrabardagi og svo kom kona í neyð og allt voða eitthvað miðalda. Nema hvað aðal er með geislabyssu á úlnliðnum. Hann reyndar varð svo fyrir einhverjum galdrageisla og endaði inni á tónleikum með W.A.S.P. og drap hljómsveitina alla. Svo kom einhverskonar Mad Max-bílaeltingarleikur.
Svo var vondi kallinn að detta oní eldfjall núna. Ég held, svei mér þá, að þessi mynd sé verri en Chronicles of Riddick.
Eníhjú, ég var í einhverjum hundakofa uppi í sveit (oft kallað sumarbústaður) um helgina. Þar fann ég bók eftir einn bloggarann, Jens Guð. Hann reyndar skrifaði bókina áður en hann fékk stöðuhækkunina, hét í þá daga bara Jens Guðmundsson. Bókin kom út fyrir hálfum þriðja áratug síðan og hefur líklega verið fyrsta bókin sem skrifuð var um popptónlist hérlendis. Ekki merkilegasta bók í heimi, en skemmtileg. Enda segir höfundur að henni sé ekki ætlað að vera uppflettirit, heldur skemmtilesning.
Í bókinni er meðal annarra talað við Egil Ólafsson, aðallega um Þursaflokkinn. Einnig er talað um Grettisgat, hljóðver Þursanna. Þar áttu sumir "minni spámenn" kost á að taka up efni sitt og virðist sem hljóðverið hafi verið rekið meira af hugsjón en gróðahyggju. Sem er fallegt. Egill talar um að reksturinn sé erfiður, enda séu útistandandi skuldir fljótar að étast upp í 100% verðbólgu.
100% verðbólga. Samt var krónan líklega ofskráð þá, enda gengið fellt handvirkt. Fær mann svolítið til að hugsa um hvað menn kvarta yfir litlu stundum. Ef verðbólgan í dag fer yfir 10% verður allt dýrvitlaust og menn missa sig í krepputali og bölsýni. Allt kolómögulegt og dauði og djöfull.
Sjálfur brosi ég bara og reyni að vera hress. Enda er ég uppfullur af lífsgleði, kristilegum kærleik og manngæsku, hamingju og ást til handa náunganum. Haldi einhver öðru fram mun ég berja viðkomandi.
Athugasemdir
Haha, frábær færsla Ingvar minn, skil nú ekkertr hví ér skuli engin vera fyrir!
til lukku með þína heittelskuðu, góð ektakvinna verður vart metin til neins, ekki einu sinni til 1000 Fendera!
En hvað segirðu, voru Blackie karlinn og Co. ekki ljósið þarna í myrkrinu!? Annars rembist minn heili núna, rámar í einhverja óborganlega frásögn af örugglega þessari sömu mynd, en man ekki hvaðan.
Nú veit ég að þegar og ef Jens minn gamli félagi les þetta, mun hans gamla hjarta gleðjast, en þótt bókin sé ekki talin til heimsafreka á sínu sviði, er hún LANGFLOTTASTA slík sem nokkurn timan hefur verið gefin út á þessu skeri!
Bara myndirnar Ingvar eru snilld, svona svipað og blessaður drengurinn hann Kobbi Jóhanns var að gera í gamla daga og sjá má t.d. í Carmínum og Mínervum M.A. og VMA!
(þig rámar örugglega í Kobba Ingvar?)
Magnús Geir Guðmundsson, 6.8.2008 kl. 19:50
Ó, jú, ég man eftir Kobba Purkhús. Hann kíkti til mín í búðina nú fyrir skemmstu. Mér vitanlega hefur hann engan drepið úr leiðindum.
Þegar ég keypti fyrsta gítarinn minn, skömmu eftir að bókin hans Jens kom út, var það einmitt hljóðfæri sem Kobbi hafði átt áður. Pálmi frændi hafði tekið hann upp í einhvern dýrari. Það var líka svakaleg hátíð að fá að kíkja í æfingarhúsnæðið hjá Kobba og félögum í Art, hvar allt var stútfullt af svakaflottum græjum. Þá þurfti nú ekki meira til að gleðja ungan mann.
Svo var Kobbi verkstjórinn minn í vinnuskólanum á þessum tíma. Held að allir í Art hafi verið verkstjórar í vinnuskólanum það árið.
Varðandi Poppbókina þá var hún svolítið barn síns tíma, en er skemmtileg og að ég held ágætis heimild. Myndirnar voru flottar, sérstaklega myndin af Bjögga Gísla.
Ingvar Valgeirsson, 6.8.2008 kl. 22:32
haha, gaman að heyra þetta og svona getur maður rambað á tilefni til upprifjunar á skemmtilegum minningum!
Jamm, Jakob ekkert annað en öndvegisdrengur, en hefur staðið í ýmsu blessaður!
Hann, tommi, tómas Finnur Guðmundsson, Hemmi, Hermann Örn ingólfsson, og viddi, Kristinn Viðar Sveinbjörnsson, voru allir minir skólabræður í Glerárskólanum, en fimmti meðlimurinn í sveitinni, Siggi Kristins var einu ári eldri, en var þó bekkjarfélagi hinna í M.A. minnir mig.
og hvað segirðu, var Kobbi eitthvað að fá sér fyrir gítarinn?
Magnús Geir Guðmundsson, 6.8.2008 kl. 23:31
Ingvar, það er mikið rétt hjá þér að Poppbókin er barn síns tíma. Reyndar vond bók sem ég skammast mín fyrir í aðrar röndina.
Vorið 1983 fékk ég beiðni um að skrifa þessa bók. Fram að þeim tíma hafði ég skrifað um poppmúsík í 10 ár fyrir allskonar tímarit og dagblöð. Tilboðið sem ég fékk um að skrifa bókina var þess eðlis að ég gat ekki neitað. Fékk 500 kall fyrir hvert selt eintak. Við erum að tala um allt annað verðlag en í dag. Fyrir sölu á bókinni (mig minnir 3000 eintök) gat ég keypt íbúð.
Þetta ár skrifaði ég fasta pistla um músík fyrir 12 tímarit og blöð. Ég man ekki lengur helminginn af þeim. Það var Vikan, Mannlíf, Nýtt líf, DV, Æskan og svo framvegis. Ég hafði aldrei skrifað texta sem átti að lifa lengur en til næsta mánaðar. Ég áttaði mig ekki á því að Poppbókin myndi lifa framyfir áramót. Að auki lenti ég í tímahraki. Þetta var fyrir daga netsins. Ég lenti í meiri vinnu en ég hafði áttað mig á varðandi heimildavinnu, ártöl og þess háttar. Ljósmyndir urðu annar höfuðverkur með tilheyrandi höfundarrétti. Sem betur fer var ég nokkuð góður teiknari og gat reddað mörgum myndum með því að teikna myndir þegar vandræði komu upp með ljósmyndir. Allt tók þetta miklu meiri vinnu en áætlað var. Ég var í fullri vinnu og vann bókina langt fram á nótt vikum saman. Ég var með auglýsingastofu og rak jafnframt pönkplötubúðina Stuð. Stóð fyrir fjölda pönkhljómleika og margt var í gangi. Ég var rúmlega tvítugur og allt var í gangi.
Kæruleysi var allsráðandi hjá mér og ég kastaði til höndum í tímahrakinu. Bókin "sló í gegn" en það var mér mjög fjarri að einhver væri að lesa hana einhverjum árum síðar. Á hverju ári fæ ég upphringingu frá fjölda manns sem er að skrifa ritgerð sem byggir á bókinni. Það er bara gaman en jafnframt skrítið að fólk sé að lesa þessa gömlu bók.
En bókin er barn síns tíma og úrelt sem slík. Hún fór framyfir síðasta söludag 1983.
Jens Guð, 7.8.2008 kl. 01:14
Miðað við þessa lýsingu virðist bókn svolítið eins og poppslagari - borgaði reikningana á sínum tíma og fær höfundinn til að skammast sín pínulítið fyrir áratugum seinna...
Man að þessi bók var eins og himnasending til foreldra og annara aðstandenda unglinga, ef enginn vissi hvað þeir vildu fá í jólagjöf.
Það var svolítið gaman af því að þegar ég var að glugga í bókina í bústaðnum voru fréttir í sjónvarpinu. Ég var að lesa viðtal við Árna Daníel, frænda minn úr Svarfaðardalnum, þegar ég heyrði að einvherjir voru að spila Sex istols-lag í sjónvarpinu. Sá þá einmitt frændann á skjánum...
Ingvar Valgeirsson, 7.8.2008 kl. 09:22
Mjög gaman að lesa þetta, fyndin tilviljun, en Jens er nú pínulítið hógvær um of og myndirnar hans eru svo sannarlega ekki komnar fram yfir neinn söludag!
Magnús Geir Guðmundsson, 7.8.2008 kl. 20:20
Ég get viðurkennt að ég er ánægður með sumar myndirnar sem ég teiknaði og birti í bókinni. Ekki síst vegna þess að ég hef ekkert teiknað í 15 ár eða svo og búinn að tapa niður þeim hæfileika.
Það er gaman að heyra að þið Árni Daníel séuð frændur. Við Árni Daníel urðum góðir vinir á pönkárunum: Tveir sveitastrákar að Norðan sem kolféllu fyrir Sex Pistols á meðan sveitungar okkar hlustuðu á Ríó Tríó. Að auki átti ég og á nákomna ættingja í Svarfaðardal, föðursystir og hennar börn á Hæringsstöðum og systur og hennar fjölskyldu á Uppsölum.
Það er rétt greining að bókin hitti vel fyrir foreldra sem völdu hana til jólagjafar handa sínum börnum. Meðal annars keypti Vigdís þáverandi forseti hana handa Ásdísi dóttir sinni sem þá var unglingur.
Útgefandinn, Bókaútgáfa Æskunnar, leyfði mér ekki að nota nafnið Jens Guð. En af því að ég teiknaði sjálfur forsíðuna þá laumaði einhverju sem líktist límmiða ofan á nafnið þannig að það skar í sundur föðurnafn mitt á þann hátt að hægt var að lesa Jens Guð út úr því.
Jens Guð, 10.8.2008 kl. 02:45
Jú, við Árni Daníel erum úr Svarfaðardalnum, ættaðir báðir frá Syðra-Garðshorni. Hann er skemmtilegur fýr, sem og litli bróðir hans, Ingó. Sá lék með Árna í einhverri seinni tíma útgáfu af Q4U fyrir áratug eða svo.
Svarfaðardalur er eins og segir í kvæðinu "afbragð annara dala". Fallegasti staður a jarðríki.
Ingvar Valgeirsson, 10.8.2008 kl. 14:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.