21.8.2008 | 18:30
Blásandi byssukjaftar og allir dauðir fyrir hlé
Bíómyndir eru mér ákaflega hugleiknar, eins og glöggir lesendur hafa kannski tekið eftir. Allskonar myndir, gaman og hrollur, ævintýri og film noir, svarthvítt og franskt og Hong Kong-myndir með vélbyssum, teiknimyndir, ofurhetjur, asískt, evrópskt, sovéskt og bara alltsaman.
Góðar myndir og vondar, bara að það sé skemmtilegt. Það er ekki nóg að mynd sé góð, hún þarf líka að vera skemmtileg - ég myndi til dæmis frekar setja Universal Soldier í tækið en að drepast úr leiðindum aftur yfir Constant Gardener (sem ég á einmitt á dvd, er til sölu, aðeins notuð einu sinni).
Mér finnst gaman að slökkva aðeins á almennri heilastarfsemi og horfa á fólk skjóta hvert annað í spað á skjánum, ellegar brytja niður með eggvopnum. Samt er ég ákaflega friðelskandi persóna og vil engum illt, mér finnst ofbeldi bara fínt í bíó. Væri fínt ef það héldist bara þar eingöngu.
Ég ætla til dæmis að sjá þessar, hvar ég tel morgunljóst að einhver verði drepinn fyrir hlé:
Death Race - ek. endurgerð Death Race 2000, hvar Sylvester Stallone og David Carradine drápu mann og annan. Nú er það Jason Statham, en hann er óneitanlega töffari.
Svo er það uppáhalds teiknimydasögupersónan mín, Refsarinn. Hann er hress. Ég er líka hress, aðallega með það að Jigsaw er bófinn í þessari mynd.
Svo er gleðin í hávegum höfð og ég er að fara að spila á Döbb á eftir. Verði stuð.
Athugasemdir
Ég var einmitt að klára eina sem ég held að þú hefðir gaman af, Tintin et le mystère de la Toison d'Or, sem er leikin frönsk-belgísk Tinnamynd frá árinu 1961 og reyndist mun betri en ég átti von á. Tinni á þar í höggi við Marcel Bozzuffi sem Gene Hackman skaut í bakið í French Connection einum áratug síðar. Bókin hefur sennilega aldrei verið gefin út á íslensku en kápuna má sjá hér. Svo gæti þér þótt þetta líka fróðlegt.
Bjarni (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 20:58
Tinni og gull-hvað?
Ég sá einhverntíma Tinna og bláu appelsínurnar á gamalli vídeóspólu. Hún var í hópi verstu mynda sem ég hef séð, allavega í minningunni. Annars er ég Tinna-fan og hlakka mikið til að sjá Spielberg-túlkunina á þessum ágæta unga manni. Ekki minnkai aðdáun mín á Tinna þegar ég sá í nýútgefinni bók fyrir síðustu jól hvað hann er mikill antí-kommúnisti eins og allir góðir menn.
Ingvar Valgeirsson, 22.8.2008 kl. 10:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.