Bond - Jimmy Bond

Man ennþá hvað ég varð hissa, og jafnframt glaður, þegar Bjarni Randver, stórvinur minn, sagði mér frá tilvist Bond-myndarinnar Casino Royale frá ´54. Þetta var fyrir litlum 13 vetrum síðan og á þeim tíma var ég allgríðarlegur Bond-aðdáandi, margfalt meiri en ég er í dag. Þóttist vita allt um kappann, en svo var greinilega ekki. Skömmu seinna vappaði ég inn í verslunina 2001 við Hverfisgötuna í fyrsta skipti - en alls ekki það síðasta, hef verið tryggur kúnni síðan - og fékk hann Sigga til að panta handa mér eintak af myndinni á VHS. Beið allverulega spenntur í hálfan mánuð og það jaðraði við að vera helgistund þegar myndin fór í tækið.

Í myndinni er Bond CIA-maður, já, amerískur, og dyggilega studdur af MI6-manninnum Clarence Leiter. Linda Christian var skvísan og hinn bráðskemmtilegi Peter Lorre, sem margir muna eftir í mikilvægu hlutverki í Casablanca, var ljótikallinn. Myndin er um klukkutími á lengd og var partur af ek. spennuþáttaröð sem bar hið klámmyndalega nafn Climax. Reyndar vantar nokkrar sekúndur aftan á myndina, en hún var klippt eilítið svo hún hentaði betur á præmtæm - eilítið ofbeldi varð að víkja. Það sem klippt var burt er víst týnt og tröllum gefið, en myndin var talin af lengi, fannst ekki fyrr en snemma á níunda áratugnum.

Aðalleikarinn vakti að sjálfsögðu áhuga minn, en hann var svalur sem janúarnótt uppi á hálendi. Barry Nelson átti reyndar eftir að leika í stórmyndum á borð við Airport, hvar hann lék "hinn flugmanninn" á móti Dean Martin og hann lék hótelstjórann í Shining, auk þess að vera allnokkuð í sjónvarpsþáttum, t.d. Twilight Zone, og svo var hann talsvert á sviði. Hann hefði orðið níræður á morgun ef hann hefði ekki tekið upp á því að hrökkva upp af.

Myndbandssnældan, sem ég fékk í 2001 um árið, hefur margborgað sig upp. Ég hef margoft unnið veðmálið "hver var fyrsti leikarinn sem lék Bond?" og þeir eru ófáir bjórarnir, og jafnvel eitthvað af peningum, sem menn hafa þurft að láta af hendi eftir að hafa fullyrt að Connery væri sá fyrsti.

Gott á þá.

P.s. Óli grís er í sjónvarpinu að tala um Helga balletspriklara í San Fransiskó. Hann segir að við Íslendingar eigum þrjá listamenn sem hafa náð alheimshylli - Laxness, Björk og umræddan balletkall. Þrjá listamenn sem heimsbyggðin þekki. Hvað með Mezzó?

Ég þori að veðja gardínunum mínum að fleiri þekki Mezzoforte en Laxness.


mbl.is Fyrsti Bond-leikarinn látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: arnar valgeirsson

Hvað með Jóa risa, frænda vorn? Hvað með Jón Pál? Hvað með Siggu Beinteins? Silvíu Nótt og Selmu? Hvað með Björgólf og Bónusfeðga? Hvað með bræðurna Valgeirsson???

Ekki tala illa um Óla. Hann er gamall kommi og þ.a.l. frábær.

Svo sé ég að á annaðhundruð manns hafa kíkt á þig í dag sem þýðir að Siggi í 2001 fær fína auglýsingu. hann á það skilið og allir í 2001 við Hverfisgötu 49 (held ég).

arnar valgeirsson, 15.4.2007 kl. 21:26

2 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Þórey litla, skrýtið að Lukku-Pési sé ekki búinn að segja þér frá myndinni fyrir löngu.

Arnljótur kommasvín, mér finnst svakafyndið að Jói risi skuli hafa verið frændi okkar hobbitanna. Hann risastór og við... ekki.

Jú, 2001 er við Hverfisgötu 49 og uppáhaldsbúðin mín, þ.e.a.s. sú búð sem mér er best við af þeim búðum sem ég vinn ekki í sjálfur.

Ingvar Valgeirsson, 15.4.2007 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband