Ha?

Svolítið skrýtin forsíða á Fréttablaðinu í dag, finnst mér. Flennistór mynd af mótmælunum í bænum, hvar einhversstaðar á bilinu sex til átta þúsund manns komu saman. Sumir smíðuðu eggjakökur og aðrir kunnu sig betur og gáfu illa borguðum laganna vörðum blóm. Mér fannst það reyndar fallegt. Svo er oggoponsulítil mynd við hliðina af tónleikunum í Laugardalshöll, hvar vinsælustu hljómsveitir landsins léku fyrir eitthvað á sjötta þúsund manns. Svo fer hálf síða í viðbót í umfjöllun um mótmælin, en ekki orð um tónleikana.

Ég verð að segja að mér finnst það nú alveg umfjöllunar virði að vinsælustu tónlistarmenn landsins komi saman fríkeypis og leiki fyrir þúsundir manna. Hefði alveg þótt í lagi að smella af nokkrum myndum og segja ögn frá. Vonandi bæta þeir úr því á morgun.

Annars vorum við félagarnir að leika í gær og fyrradag á hinum rómantíska veitingastað Dubliner. Gaman að því. Mikið rokk og talsvert ról. Slatti af gestum yfir helgina, Tryggvi var memm megnið af föstudagskvöldinu og átti nokkra óborganlega, Arnar, a.k.a. sölustjarnan úr Rönning, tók nokkra vel valda slagara og Kiddi "Gestur" Gallagher sá um bössun á meðan. Nú kem ég varla upp orði sökum hæsis, líklega farinn að nálgast það að vera of gamall fyrir þessa vitleysu, spila frá klukkan eitt til fimm tvö kvöld í röð og syngja allt sjálfur. Sé það núna að ég hefði átt að fara í Guðfræðina, kominn á þan aldur að það er auðveldara að vakna klukkan sex á sunnudagsmorgnum en að fara að sofa þá.

Sjónvarpið mitt segir mér núna að það sé klofningur í Framsóknarflokknum - er það ekki álíka og að kljúfa atóm? Svo er Steingrímur J., ástmaður bróður míns, að segja nokkur orð í sjónvarpinu. Hann er gallharður á að hoppa ekki á ESB-vinsældavagninn. Gleðst yfir því. Færir mér klígju og viðbjóð þegar pólítíkusar byrja að blaðra um mögulega aðild, þvert á eigin sannfæringu, bara til að fiska nokkur atkvæði. Ætla rétt að vona að Sjallarnir taki ekki upp á þessari vitleysu. Þætti leiðinlegt að þurfa að flytja til Noregs.

Svo er búið að semja um Icesave-draslið. Mikið svakalega eiga skrilljón bloggarar eftir að tjá sig um það af miklum móð... ekki ég. Sá að sumir þeir hörðustu eru með blogg bæði á vísisvefnum og moggablogginu, vælandi úr sér lungu og lifur yfir öllum andsk&(#% - þá tók sig upp gamalt bros.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Höfuðið á þér gæti verið uppi í óæðri endanum, gæti verið úti að aka, gæti verið á fylleríi, en það er í það minnsta ekki á öxlunum á þér.

Sjallarnir eru í óða önn að klofna yfir evrópumálunum. Nú skaltu gera sjálfum þér greiða, hætta að tala með rassgatinu, og viðurkenna að allar þínar stjórnmálaskoðanir hafa reynst rangar. Það gerði ég á sínum tíma þegar ég áttaði mig á því að öfgavinstri er kjaftæði, og þetta er það sem heilbrigt fólk gerir - sem er ástæða þess að sjallarnir þínir ástkæru geta það ekki.

Eyvindur Karlsson (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 23:53

2 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Eyvindur minn, blind aðdáun er jú hættuleg og getur villt manni sýn. Blint hatur gerir nákvæmlega það sama. Heldurðu virkileg að allt sem hefur gerst upp á síðkastið sé Sjálfstæðismönnum einum að kenna? Auðvitað eru þeir ekki allir sem einn hvítþvegnir og ilmandi af sakleysi, frekar en aðrir. Heldurðu t.d. að það auki traust erlendra fjárfesta á landinu og gjaldmiðli þess þegar utanríkis og viðskiptaráðherra blaðra út í eitt um hvað gjaldmiðillinn sé ónýtur, milli þess sem þau baknaga samstarfsflokk sinn og gera lítið úr stjórnarsáttmálanum?

Ekki gleyma því heldur að það er ekki eins og við séum eina landið sem glímir við fjármálakreppu núna. Bæði Bandaríkin, hvar upptök kreppunnar áttu sér stað, sem og Bretland (við skulum ekki gleyma þætti forsætisráðherra þeirra, sem er samflokksmaður Ingibjargar og Össurar) glíma við mikla efnahagsörðugleika, sem og margir aðrir. Þar hafa bankar verið þjóðnýttir, þar er gjaldeyrisþurrð og allt í skralli.

Vissulega væri ástandið mikið skárra ef erlendar skuldir bankanna hefðu ekki verið svona miklar, en það er ekki hægt að skrifa það á einn flokk, bara stjórnendur bankanna - það er ekki einu sinni hægt að kenna einkavæðingu bankanna um að öllu leyti, því fyrsti bankinn sem rúllaði - einmitt út af erlendu láni sem þeir gátu ekki borgað - er banki sem ég man ekki til að hafi nokkurntíma verið í ríkiseigu. Ekki gleyma því heldur að bankarnir heyra undir viðskiptaráðherra (sem býr svo vel að vera heimsspekingur) sem virðist nákvæmlega ekkert hafa vitað um erlend umsvif bankanna fyrr en allt var komið í klessu. Enda milliliðurinn, Fjármálaeftirlitið, nokk greililega ekki alveg að fá tíu í einkunn.

En ekki halda að ég sé staurblindur aðdáandi Sjallanna. Ég er ekki flokksbundinn og hef aldrei verið. Ég hef alveg kosið annað. Ég mun líka alveg pottþétt ekki kjósa þá ef þeir hoppa á ESB-vagninn. Skila auðu er líka æði álitlegur kostur. Finnst reyndar að auðir ættu að eiga þingsæti, ef nógu margir skili auðu verði bara auður stóll, enda alltof margir. Svo finnst mér Samfó vera að sleppa svolítið létt frá ástandinu núna. Ekki víst að þeir líti jafn vel út "when the dust settles".

Eigendur bankanna koma hinsvegar til með að líta alltaf voða vel út, enda eiga þeir allar fréttastofurnar nema Rúv.

Ingvar Valgeirsson, 17.11.2008 kl. 16:11

3 identicon

ég vil ESB og evruna, ekkert vit í öðru og komdu í samfylkinguna með mér. víst er hægt að skrifa skuldirnar á flokk, hverjir eru búnir að steypa okkur í þessi vandræði FRAMSÓKN OG SJ'ALFSTÆÐISMENN þeir leyfðu útrásinni að ganga allt of langt.

well ætla að fara að bora i nefið

p.s koddu svo á fjésið sjallinn þinn

rabbabararúna (IP-tala skráð) 17.11.2008 kl. 16:31

4 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Sigrún litla, útrás bankanna gekk alltof langt. Það er kórrétt. En flokksbróðir þinn hefur verið viðskiptaráðherra, settur yfir bankana, í meira en ár. Hvað hefur hann gert? Ekkert, nama kannski að hann talar betri ensku en forveri hans.

Á ég að koma á fésið á þér meðan þú borar í nefið? Hvusslags fettiss er það eiginlega?

Ingvar Valgeirsson, 17.11.2008 kl. 17:05

5 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Þeir Quilsingar sem vilja ganga í ESB mega alveg ganga þangað (og drukkna á leiðinni).

Ísland verði hinsvegar áfram utan Fjórða Ríkisins.


J. Einar Valur Bjarnason Maack , 17.11.2008 kl. 17:42

6 identicon

Ég segi nú bara að  mér finnst ekki rétt að vera að reyna að benda á sökudólga núna....hahahahahahahahahahahahahahahhahahahahahaahahahahahahahahahahahahahahahahahahahahahahah...

jíha

Haukurinn (IP-tala skráð) 17.11.2008 kl. 18:14

7 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Glaður skal ég benda á hljómsveit sem ber nafnið Sökudólgarnir. Þeir eru skemmtilegir og full þörf á að leita að þeim, benda á þá og hlusta á þá.

Ingvar Valgeirsson, 17.11.2008 kl. 18:32

8 identicon

feisbúkk asni. láttu feisið á mér vera

rabbabararúna (IP-tala skráð) 17.11.2008 kl. 21:13

9 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Hehe, hún Rúna lætur þig ekki komast upp með kjaft, er greinilega skemmtileg manneskja eins og þú!

En Ingvar minn, hver er eiginlega punkturinn hjá þér með þessu? Misjöfn stærð á myndunum, er það málið, "skandallinn"? Eða ertu að segja að EIGANDINN SJÁLFUR sé með puttana í spilinu? Af tónlistarmönnum sé Hörður Torfa og það sem hann tekur upp á, frekar í náðinni en t.d. Bubbi og það sem hann aðhefst?

Magnús Geir Guðmundsson, 17.11.2008 kl. 22:38

10 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Nei, Magnús minn, ég var bara að segja að mér þætti of lítið fjallað um tónleikana. Punktur. Held þú getir verið sammála mér þar.

Ingvar Valgeirsson, 18.11.2008 kl. 10:32

11 identicon

Samfó mælist hátt því þeir hafa tekið óánægjufylgi Sjallananana. Það er ESB æði í gangi því flestir eru að skíta í sig af hræðslu. Þegar umræðan fer í gang þá breytist það. sjallarnir fara þá aftur yfir 30%. Ekkert breytist. Nema náttúrulega skuldastaðan og lífsgæðin.

Elvar Geir Sævarsson (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 15:09

12 identicon

Sæll frændi og takk fyrir síðast.

Skítt með ESB, framsókn, samfylkinguna, sjálfstæðisflokkinn, evruna og kreppuvælið, mikið hryllilega skemmti ég mér ógurlega á Dyflinnarbúanum um helgina, þarf endilega að prufa þetta fljótlega aftur.

Maron Bergmann (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 23:14

13 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Maron - það var líka obbosla gaman að sjá ykkur hjónin. Þið voruð í stuði. Je.

Ingvar Valgeirsson, 19.11.2008 kl. 10:17

14 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Jamm, hér sé stuð og verði, íá Dubliner sem á Dropanum forðum, er drakkstu skál í Djöfsa boði! (Mínu)

En það var nú samanburðurinn þinn kotroskni karlinn minn, hann átti nú ekki við ef gagnrýnin var ein og eingöngu varðandi tónleikaumfjöllunina, sem við jú vissulega erum sammála um að sé aldrei of mikil. Það þýddi þó ekki að það ætti að vera á kosnað mótmælanna.

Annars er ég nokk svo sæmilega meir en súr, á svo mikið af skemmtilegum plötum, nýjum sem gömlum, en þó öllum nýjum fyrir mín eymdareyru!

En svei mér, heita ekki bara allir núorðið Bergmann, að skírnarnafni eða ættar!?

Magnús Geir Guðmundsson, 19.11.2008 kl. 21:59

15 identicon

Ingvar, ég var ekki að segja að ALLT væri sjálfstæðisviðrinunum að kenna. Hins vegar er því ekki að neita að þeir hafa setið við stjórnvölinn allt allt allt of lengi og leyft þessu að viðgangast. Og ég tek það fram að mér er næstum jafn illa við samfó.

Það er að vissu leyti bjánaskapur að kenna bankastjórunum gömlu um þetta að öllu leyti. Bankarnir voru einkafyrirtæki á kapítalískum markaði og hugsa þar af leiðandi aðeins um sjálfa sig og að stækka sem mest - það er eðli markaðarins. Til þess að hemja það þurfa stjórnendur annað hvort að breytast í Ghandi skyndilega eða þá að eftirlit og reglur þurfa að vera strangari. Þetta brást, ekki satt?

Það hefði átt að setja strangari lög um bankana fyrir mörgum árum síðan - Sjálfstæðisflokkurinn gerði það ekki.. Sjálfstæðisflokkurinn, með dyggri aðstoð frammara, stóð fyrir mestu spillingu sem um getur í kringum einkavæðingu bankanna, eins og fram hefur komið. Sjálfstæðisflokkurinn skipaði vanhæfan seðlabankastjóra - og neitar nú að láta hann fara, þrátt fyrir sífellt brjálæðislegri hegðun hans. Sjálfstæðisflokkurinn virðist ítrekað hafa kæft niður alla gagnrýni á bankana, þrátt fyrir að hún hafi jafnan komið frá virtum sérfræðingum, innlendum og erlendum. Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa hundsað viðvaranir seðlabankastjóra, og í kjölfarið gerði viðkomandi seðlabankastjóri lítið úr áhyggjum sínum í riti seðlabankans - fimm mánuðum eftir viðvaranir sínar. Já, sjálfstæðisflokkurinn hefur greinilega verið að standa sig hrikalega vel.

En þú ert augljóslega nákvæmlega jafn hrokafullur og viðkomandi sjallar, og neitar að viðurkenna að þér hafi mögulega skjátlast. Til hamingju.

Eyvindur Karlsson (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 23:25

16 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Eyvi - "Það hefði átt að setja strangari lög um bankana fyrir mörgum árum síðan - Sjálfstæðisflokkurinn gerði það ekki." Það er reyndar viðskiptaráðherra að setja þau lög, skilst mér. Bankarnir heyra nefnilega undir hann. Sá ráðherra er ekki sjálfstæðismaður, frekar en konan frá Grenivík sem gengdi embættinu á undan honum.

Það hefði reyndar hver sem er af þingmönnum getað farið fram á takmarkanir á starfsemi bankanna, hvort heldur sem er innan ríkisstjórnar eða utan. Man ekki til þess að nokkur þeirra hafi borið fram frumvarp þar að lútandi.

Það er líka til eftirlitsstofnun, Fjármálaeftirlitið. Stofnun sem á að upplýsa t.d. viðskiptaráðherra um stöðu bankanna. Þarf varla að segja þér hvað þeir FME-menn sögðu um bankana rúmum mánuði áður en þeir voru ei meir.

Jú, auðvitað hefði viðskiptaráðherra getað sniðið bönkunum þrengri stakk. Auðvitað hefði líka hvaða þingmaður sem er getað sett fram frumvarp til laga um hámarksskuldsetningu bankanna.

Auðvitað hefði líka FME getað staðið sig ívið betur og eigendur og stjórnarmenn bankanna hefðu líka getað reynt að missa sig ekki alla leið í að taka gríðarhá lán (t.d. til að lána eigendum sínum stjarnfræðilegar upphæðir). Segir sig sjálft að það er ekki gáfulegt að fá lánaðar háar upphæðir til skamms tíma og lána þær til langs tíma, treystandi á að maður fái viðbótarlán á meðan til að brúa bilið.

Svo vitna ég í þig aftur - "Ingvar, ég var ekki að segja að ALLT væri sjálfstæðisviðrinunum að kenna."

Ég einhvernvegin átti erfitt með að skilja þetta: "Sjálfstæðisbölið er búið að eyðileggja landið. Til hamingju, þú og vinir þínir kusuð yfir okkur kreppu." öðruvísi en svo að þú sæir enga aðra sökudólga.

Hvað varð annars um síðuna þína? Hún hvarf og ég er hundfúll!

Ingvar Valgeirsson, 20.11.2008 kl. 10:45

17 identicon

Viðskiptaráðherra setur engin lög. Alþingi setur lög

Haukurinn (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 21:04

18 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Ókei, Juggi, umorðun - "er viðskiptaráðherra að setja fram frumvörp til laga þar að lútandi".

Rétt skal vera o.s.frv.

Ingvar Valgeirsson, 21.11.2008 kl. 13:25

19 identicon

Jújú, fullt af sökudólgum. Erfitt þó annað en að skella langmestri skuldinni á þá sem hafa stjórnað landi, fjármálaráðuneyti og seðlabanka lengst af. En nota bene er samfó varla mikið skárri - eintómir lýðskrumarar þar á ferð líka. Og maður fær eiginlega ekki betur séð en að samfríkin séu orðin útibú sjálfstæðisbibbanna.

Aðalatriðið er að sjálfstæðisvibbinn einkavæddi bankana með brjálæðislegustu spillingu sem sést hefur, sjálfstæðiskjánar tóku bankaeftirlitið úr seðlabankanum, besti vinur aðal - sem maður fær ekki betur séð en að stjórni Flokknum enn á bak við tjöldin - hefur tekið þjóðina svo innilega í rassgatið til að þjóna eigin ferli að mann verkjar fyrir hönd þar-þarnæstu kynslóðar, auk þess sem sjálfstæðisósóminn kom þessari öfga-nýfrjálshyggju á koppinn hér á landi og leyfði henni að viðgangast langt umfram alla heilbrigða skynsemi.

Ég er alls ekki að segja að sjálfstæðisfurðuverkin eigi alla sök. Ég er hins vegar að segja að mér - og reyndar allmörgum sjálfstæðismönnum sem ég hef talað við undanfarið - finnist ólíklegt að svona illa væri komið hefðu forystumenn Flokksins undanfarinn áratug eða svo sýnt lágmarks skynsemi í stjórnarháttum sínum. Eins og ég segi - takk fyrir að kjósa yfir okkur kreppu.

Síðan mín varð fyrir barðinu á kreppunni - það var kominn tími til að endurnýja hýsinguna, en þar sem ég stefni hraðbyri í að verða atvinnulaus, hef lækkað í tekjum um á að giska 50% og síðan er hýst erlendis með því fylgjandi brjálæðishækkun gat ég ekki framlengt samningnum og síðunni var lokað. Ég er að vinna í að koma upp nýrri síðu. Þú færð að vita af því fyrstur manna.

Eyvindur Karlsson (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 21:24

20 identicon

Úbs, gleymdi aðal-aðalatriðinu: Besti vinur aðal skipaði sjálfan sig seðlabankastjóra. Haarde rekur hann ekki, þrátt fyrir að hann geri okkur að athlægi á hverjum degi. Það þarf ekki að segja meira um þennan flokk.

Eyvindur Karlsson (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 21:25

21 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Af hverju fjármálaráðuneyti? Það virtist ágætlega rekið, svo vel að ríkið var nær tótallí skuldlaust... þar til fyrir tæpum tveimur mánuðum.

Reyndar finnst mér Sjallarnir vera fullmikið að elta Samfó núna - fullmargir farnir að elta ESB-bóluna. Held að þá fyrst verði kreppa ef við látum innlima okkur í það á útsölu. Held líka að það kosti Sjallana meira fylgi en þeir græða á því ef þeir lýðskruma yfir sig og gerast Kvistlingar.

Svo steingleymirðu alveg að minnast á Árna Johnsen. Það var verra en flest.

Jú, svo er öfga-nýfrjálshyggja orð sem á lítið erindi í umræðu um Sjallana. Þeir lullast þarna skrefi eða tveim hægra megin við miðju, enda verður aldrei mikið hægra hérlendis. Til þess erum við alltof fá.

Reyndar held ég að Davíð eigi eftir að sanna sig - fyrst núna eftir fjögur ár eru menn að sjá að fjölmiðlafrumvarpið var alveg beint í mark. Held líka að eftir einhvern tíma, þegar rykið sest, komi hann betur út en sumir aðrir í atburðarrásinni núna. Það er t.d. mikið bölsótast yfir stýrivaxtahækkuninni og Davíð kennt um hana. Aldrei tekið fram í fréttunum að hún var jú skilyrði fyrir IMF-láninu (nr. 19 á plagginu ef ég man rétt), þrátt fyrir að fréttamenn viti það væntanlega.

Hinsvegar verð ég að taka fram að ég er alls ekki Sjálfstæðismaður. Ekki flokksbundinn og mun örugglega ekki verða það héðan í frá. En fyrir síðustu kosningar virkuðu þeir sem langillskásti kosturinn. Líklegt má telja að Auður fái mitt atkvæði næst ef ekki verða þeim mun róttækari breytingar.

Ingvar Valgeirsson, 22.11.2008 kl. 18:02

22 identicon

Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af ESB þannig, en geturðu bent á einhverja aðra skynsamlega leið til að losna við krónuna? Ekki segja mér að þú sért fylgjandi því að leyfa Bubba kóngi að spila með IMF lánið til að reyna að lífga krónuna við eins og dr. Frankenstein í rafmagnsleysi?

Og veistu, ef þú ætlar Í FULLRI ALVÖRU að verja Davíð Oddsson... Eh... Mig langar ekki að vera andstyggilegur, þar sem þú ert fínn kall, þannig að ég held ég segi bara ekki meira. Vona bara að þú vaknir einhvern tíma og horfir í kringum þig.

Eyvindur Karlsson (IP-tala skráð) 22.11.2008 kl. 21:45

23 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Það er ekki eins og Evran sé eini kosturinn ef menn vilja endilega losna við krónuna. Dollarann getum við t.d. tekið upp án þess að ganga á hönd miðstýrðu skrifræðisbákni. Það eru allnokkur lönd sem nota dollarann, sum hver talsvert mikið stærri og fjölmennari en við. Svo er ég ekkert endilega á því að krónan sé alveg handónýt - hún stóð sig t.d. ágætlega þangað til ákveðnir ráðherrar fóru að tala um hversu ónýt hún væri daginn út og inn - það er ekki eins og það hafi hjálpað.

En Davíð, kallinn - bíðum og sjáum til. Ég er hinsvegar glaðvakandi, ef ég væri steinsofandi Sjallakráka væri ég byrjaður að tala um ágæti ESB, væntanlega.

Ingvar Valgeirsson, 23.11.2008 kl. 00:23

24 identicon

Ég held að allir hagfræðingarnir séu tæpast að ljúga þegar þeir segja að það sé ekki nóg að taka bara upp annan gjaldmiðil - við þurfum líka sterkan seðlabanka á bak við okkur. Þess vegna þýðir ekki einhliða upptaka evru eða dollars eða noskrar krónu. Við þurfum myntbandalag, og það verður varla við BNA. Annars finnst mér Noregur jafnvel betri kostur en ESB.

Samt vil ég helst ganga inn í Kanada. Þá ekki í myntbandalag, heldur sem nýlenda. Við kunnum ekki að fara með þetta sjálfstæði - losum okkur við það.

Eyvindur Karlsson (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband