Vísbendingar...

Þáttaka í bíógetraun er hressandi, bæði hér og á feisbúkkinu. Enginn hefur rambað á rétt samt.

Því kem ég með vísbendingar:

Leikarinn, sem spurt er um, hefur leikið nasista í það minnsta tvisvar. Einn raunverulegan og annan skáldaðan. Sá skáldaði var einstaklega ógeðfelldur, eins og nasista er siður. 

Báðar myndirnar, hvar hann leikur nasista, gerast löngu eftir að seinna stríði lýkur. Önnur er stórgóð, hin ekki (persónulegt mat).

Ekki nóg með að hann hafi leikið nasista í myndum sem gerast eftir seinna stríð - í ágætisræmu lék hann líka mann sem var á höttunum eftir frægum nasista. Sú mynd gerðist líka eftir stríð.

Leikarinn, sem spurt er um, hefur sést í myndum með nokkrum ansi frægum leikurum, eins og áður hefur komið fram. Einn þeirra er Jude Law, en ekki bara hafa þeir verið í sömu bíómynd, heldur tengjast þeir aðeins öðruvísi líka gegnum bíó.

Hvern er ég að spyrja um?


Leikaragetraun

Hæ. Nú skal skjóta fram leikaragetraun.

Ég spyr um leikara. 

Hann lék eitt sinn frægan karakter úr seinna stríði í bíómynd. Sú mynd var ek. framhald vinsællar stríðsmyndar. Þrátt fyrir að skarta, líkt og fyrri myndin, fríðum hópi leikara náði hún ekki sömu vinsældum.

Þið gætuð hafa séð hann í myndum með prýðisleikurum eins og  t.d. Michael Caine, Maggie Smith ellegar Angelina Jolie.

Hver er?

Eins og með aðrar svona bíógetraunir er þetta skítlétt ef þú veist svarið...

 

 


Weezbendingar

Vegna góðrar þáttöku ætla ég að skella inn vísbendingum í bíógetrauninni.

Eins og áður sagði lék okkar maður geðveikan raðmorðingja í bíómynd. Fyrsta myndin um þennan ágæta mann var reyndar gerð áður en leikarinn fæddist, hann lék í einni framhaldsmyndinni.Fyrsta myndin hefur reyndar verið endurgerð, en það er önnur saga.

Hann toppaði býsna snemma, þ.e. ein af hans fyrstu myndum var örugglega sú vinsælasta sem hann lék í. Hann hefur í seinni tíð leikið í sjónvarpi og óháðum myndum, en hefur líka verið í a.m.k. tveimur stórmyndum í seinni tíð. 

Hann er líka tónlistarmaður og hefur gefið út eigin músík og samið músík fyrir einhverjar myndir.

Jæja, hver er?


Bíógetraun í erfiðari kantinum... held ég.

Já, spurt er um leikara.

Hann hefur verið lengi að, en hann lék í sinni fyrstu bíómynd fyrir 30 árum síðan. Ekki liðu mörg ár uns hann lék eitt aðalhlutverkið í gríðarvinsælli mynd.

Hann lék einn af frægustu morðóðu geðsjúklingum bíósögunnar.

Hann hefur leikið á móti nokkrum stórleikurum, t.d. Brad Pitt, Leonardo DiCaprio og Christopher Walken.

Hann hefur leikið, eins og svo margir aðrir leikarar, í CSI-þætti.

Einhver?


Poppmenning og pólítík

Í Fréttablaðrinu í dag er skemmtileg grein á bls. 18, hvar minnst er á nokkra poppara  sem hafa farið í pólítík. Dæmin eru bæði íslensk og erlend, enda af mörgu að taka.

Því datt mér í hug að minnast á nokkra ágæta listamenn, sem tekið hafa þátt í pólítík. Ekki bara poppara, enda eru sumir á lista Fréttablaðsins meira þekktir fyrir leik í kvikmyndum, sbr. hina vinsælu leikkonu Cicciolina. Tel samt óþarfa að minnast á Jón Gnarr, Ronald Reagan eða sjálfan Arnold.

John Kay, söngvari og aðalsprauta Steppenwolf, sat víst um tíma í borgarstjórn San Fransisco. Sem er pínu fyndið, þar sem hann fæddist í Litháen, þeim parti sem þá var Þýskaland, flúði svo í fangi móður sinnar lengra inn í Þýskaland hvar varð Austur-Þýskaland seinna, flúði þaðan sex ára til Kanada og flutti til Kaliforníu sem ungur maður. Hann var víst skammaður á borgarstjórnarfundum fyrir að neita að taka af sér sólgleraugun - en hann þjáist af augnsjúkdómi sem gerir hann einstaklega ljósfælinn auk þess sem hann sér allt í svart/hvítu og er lögblindur. 

Íslenski rithöfundurinn Stefán Máni finnst mér hress, svona ef marka má það litla sem ég hef lesið eftir hann. Svartur á leik er t.d. prýðisgóð lesning og vonandi að myndin, sem nú er í vinnslu, geri sögunni góðskil. Stefán Máni tók þátt í prófkjöri Sjálfstæðismanna fyrir ekki svo löngu síðan. Reyndar er fullt af listamönnum sem hafa tekið þátt í prófkjörum út um allt, en mér finnst sem listamenn hafi minna sést í Sjálfstæðisflokknum en öðrum flokkum síðustu ár, svo ég ákvað að minnast á hann.

jesse_ventua.jpg

Svo er það þessi ágæti herramaður - Jesse Ventura. Hann er ekki bróðir Ace.

Hann var í bandaríska sjóhernum og var þar í svokallaðri "underwater demolition team". Þeir kalla ekki allt ömmu sína. Svo var hann lengi vel glímukappi í allnokkurn tíma og varð þekktur sem slíkur. Einnig var hann lífvörður fyrir bresku poppsveitina The Rolling Stones.

Hann lék í allnokkrum bíómyndum og sjónvarpsþáttum og tengist þar fleiri leikurum sem hafa farið útí pólítík - t.d. í Predator, hvar framtíðarríkisstjóri Kaliforníu fór með aðalhlutverkið. Í þeirri mynd var líka fyrrum klámmyndaleikarinn Sonny Landham (indjáninn með kutann), en hann átti eftir að fara út í pólítík líka eftir að hafa drepið mann og annan í bíó. Ventura hefur reyndar leikið í fleiri myndum með Arnold, í það minnsta Running Man, þar sem Arnold drap hann, og Batman and Robin, þar sem Uma Thurman drap hann.

Jesse Ventura varð bæjarstjóri í Brooklyn Park í Minnesota fyrir tveimur áratugum og svo ríkisstjóri í framhaldi af því. Hann er öfgahægrisinnaður og með munninn fyrir neðan nefið. 

Eruði ekki annars bara hress?

 

 


Stuð.

SætikallinnJá, ég er sexífúl.

Þórður vann!

Ég vil óska Þórði til hamingju með að hafa  unnið það sem ég hélt að væri erfiðasta bíógetraunin lengi.

Spurt var um Jackie Earle Haley, sem þekktastur er líklega fyrir að leika Rorscharch í The Watchmen og Freddie Kruger í nýju Nightmare on Elm Street-myndinni. Hann er hress. Óþekkjanlegur í báðum tilfellum mestan part myndarinnar.

Hann er búinn að leika í bíó síðan á barnsaldri. Tók sér langt frí, en kom aftur með stæl og fékk Óskarstilnefningu fyrir Little Children. Það var víst Sean Penn sem fékk hann til að byrja að leika aftur í bíó og kann ég honum bestu þakkir fyrir. Í Little Children lék einnig hin stórgóða leikkona Kate Winslet, sem lék líka í All the King´s Men, sem var næsta mynd Haley. Hún er dúlla.

Sagan segir að Haley hafi reynt að fá smáhlutverk í upphaflegu Nightmare on Elm Street. Gerði þau mistök að taka vin sinn, Johnny Depp, með til að fá andlegan stuðning. Depp hreppti hlutverkið, en Haley fékk aðal þegar myndin var endurgerð.

Hann leikur í þáttunum Human Target sem sýndir eru á Stöð 2 um þessar mundir.

Sé stuð?

 


Prófum nú bíógetraun

Já, enn ein svona.

Spurt er um leikara.

Hann lék í sinni fyrstu bíómynd fyrir hartnær fjörtíu árum síðan og er enn að.

Hefur verið tilnefndur til Óskars, en ekki fengið.

Löngu áður en hann byrjaði að leika í bíómyndum hafði hann leikið í sjónvarpsauglýsingum og víðar.

Hann hefur leikið bæði í bíó og sjónvarpi. 

Með ákaflega stuttu millibili voru frumsýndar tvær bíómyndir, hvar hann var óþekkjanlegur bróðurpart myndarinnar.

Hann tók sér allnokkurt hlé frá leiklistinni og lék ekki í mynd í mörg ár. Svo skemmtilega vildi til að í tveimur fyrstu myndunum sem hann lék í eftir hléið lék hann á móti sömu leikkonunni.

Sagan segir að fyrir löngu síðan hafi hann farið í prufu fyrir lítið aukahlutverk í bíómynd. Hann tók vin sinn með til að fá móralskan stuðning, en það fór ekki betur en svo að vinurinn fékk hlutverkið. Löngu seinna var myndin endurgerð og þá fékk okkar maður uppreisn æru og landaði aðalhlutverkinu og gerði vel. Vinur hans er hinsvegar miklu frægari.

Hver er? Já, þetta gæti verið erfitt...


Bíógetraun

Jæja, gott væri að skella fram bíógetraun núna fyrir helgina. Sé stuð.

Ég spyr um leikara.

Hann hefur verið að lengi og leikið í fjölda mynda. Hann lék t.d. í einni frægustu gamanmynd sögunnar og gerði vel. Var svo kvæntur frægri og ákaflega sætri leikkonu.

Eitt sinn var gerð mynd sem fjallaði m.a. um hann og hans familíu. Þar var okkar maður leikinn af ungum og upprennandi leikara - sem lék svo son okkar manns í sjónvarpsþáttum seinna. Gaman að því.

Sá sem spurt er um hefur leikið eineygðan mann.

Hver er?


Einar vann.

Það var hann Einar Kristinn, a.k.a. Holdljósið, sem lagði getraunina að þessu sinni. Spurt var um Debbie Harry. Hún var nefnd Angela Trimble rétt eftir fæðingu, en ættleidd þriggja mánaða og fékk þá nafnið Deborah Ann Harry. Gaman að því.

Hún söng fyrst inn á plötu - reyndar aðeins bakraddir og smotterí - 1968, löngu áður en hún náði frægð og frama með hljómsveitinni Blondie.

Hún lék í Copland með Robert De Niro, Anamorph með Willem Dafoe, Spun með Mickey Rourke (hvar hún lék lesbíu) og Tales from the Darkside með Steve Buscemi.Í myndinni Spun fór frægur þungarokksöngvari með sitt eina bíóhlutverk hingað til, en það var Rob Halford sem lék afgreiðslumann í klámsjoppu.

Gott hjá þér Einar.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband