Íslandsflokkurinn

Svolítið röfl um nýja framboðið, hvar fremst eru í flokki Jakob Frímann, Ómar Ragnarsson og Margrét Sverrisdóttir.

Ómar er jú forystusauðurinn. Eðlilegt, þar sem hann fékk eitthvað á annan tug þúsunda manns til að labba með sér niður Laugaveginn til að mótmæla atvinnuuppbyggingu. Má deila um aðferðirnar sem hann notaði til að fá fólk með sér, sýndi myndir af svæðum sem hann sagði að færu undir vatn þegar svo var alls ekki og sagði að honum finndist lítið mál að safna 300 milljörðum svo hægt væri að hætta við framkvæmdir á Kárahnjúkum. En hann er vinsæll og fjöldi fólks kemur til með að kjósa hann.

Svo er það Jakob Frímann. Hann er vinsæll líka, enda hefur hann gert sitthvað gott, sérstaklega fyrir tónlistarmenn landsins. Hann er líka fantagóður músíkant og viðkunnanlegur maður. Umhverfismál hafa líka verið honum ofarlega í huga sl. ár, auk þess sem mér fannst gaman að heyra hann segja frá því þegar hann var varamaður á þingi og gert af samflokksmönnum sínum í Samfylkingunni að kjósa gegn skattalækkunum. Honum fannst það ekki gott mál. Hann hefði samt mátt hætta í Samfó fyrr, t.d. áður en hann fór illa út úr prófkjöri flokksins.

En svo er það hún Margrét, eða "unga konan" eins og fjölmiðlar hafa verið duglegir að kalla hana. Hún var mikið í fréttum nýverið, eins og fólk eflaust man, þegar hún gekk úr hinum bráðhressa Frjálslynda flokki. Hún náði ekki inn í borgarstjórn í síðustu kosningum og virðist hafa sitt á hreinu. Dæmi um það er t.d. þegar hún sparaði ekki stóru orðin þegar Gunnar Örlygsson gekk úr FF yfir í Sjálfstæðisflokkinn, en sagði ekki af sér þingmennsku. Frjálslyndir misstu eitt af fjórum þingsætum sínum yfir til Sjallanna. Svo veiktist Ólafur F. Magnússon, eini maður FF í borgarstjórn, og hún tók sæti hans sem varamaður, þrátt fyrir að hafa þá nýverið gengið úr flokknum. Situr sem óháður. Hún hefur sumsé aldrei náð inn á þing, og verða að teljast vafasöm meðöl sem hún notaði til að komast í borgarstjórn. Allavega taldi hún sjálf svona meðul vafasöm fyrir ekki löngu síðan.

Hlakka annars til að heyra meira af stefnu Íslandsflokksins. Ég veit hvar þau standa varðandi stóriðju og umhverfismál, en hvað með skattamál, ESB, menntamál, Evruna, innflytjendamál og annað sem máli skiptir? Eru þau enn að ákveða hvaða skoðanir, ef einhverjar, þau hafa á því? Eða skiptir það kannski engu máli?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta skilst mér, samkvæmt áreiðanlegum heimildum, að verði mjög hægrisinnaður flokkur með miikkllaa áherslu á einkaframtak í stað stóriðju. Hugmyndasmiður flokksins leggur áherslu á hægristefnu til að reyna að höfða til umhverfissinna sem ekki geta hugsað sér að kjósa konuna mína eða rauhærða skallakallinn.  

Elvar Geir Sævarsson (IP-tala skráð) 19.3.2007 kl. 20:20

2 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Rauðhærða skallakallinn? Ómar eða Steingrím?

Anyways.. Ég verð að segja að ólíklegt sé að þetta framboð komi til með að teljast mikill bógur í framtíðinni...

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 19.3.2007 kl. 22:07

3 identicon

Steingrímur var það Mr.Maack.

Þar sem þetta framboð er ekki í nafni Framtíðarlandssins þá flöppar sennilega.  Aftur á móti ef þar hefði verið boðið fram þá væri athyglivert að fylgjast með.

Elvar Geir Sævarsson (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 10:55

4 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Mér finnst líka alveg æði hvað fjölmiðlar tala mikið um Margréti sem "ungu og efnilegu konuna". Hún er alveg þremur árum yngri en Steingrímur J. Sigfússon, sem hefur setið á þingi í vel á þriðja áratug.

Ingvar Valgeirsson, 20.3.2007 kl. 13:07

5 Smámynd: arnar valgeirsson

Þar sem þú ert enn einu sinni kominn i pólítikina, bróðurómynd, þá ætla ég að setja hér inn komment sem ég setti hjá Guðfríði Lilju, vinkonu minni sem er vinstri græn. Þannig er mál með vexti að ég las grein eftir kvikmyndagerðarmann í Fréttablaðinu í gær, mánudag, þar sem hann lofsöng þitt fólk en varaði þvílíkt sterklega við mínu, að það var eiginlega bara sniðugt. Hann er greinilega eitthvað smeykur svona síðustu vikurnar. Ekki banna ég manninum að hafa skoðanir, þó ég sé vinstri grænn og vilji banna allt og sé á móti öllu og að drepast úr forræðishyggju, eins og mér skilst á þér og þínum að við vinstri menn séum, en lestu þetta viðtal og skoðaðu kommentið, litli bró.  Og hæ og hó. Og bæ.

 Langar að benda á grein í Fréttablaðinu í gær, mánudag, eftir Ragnar Halldórsson kvikmyndagerðarmann. Hún heitir "ávextir frelsisins gætu hætt að vaxa" og er lofrulla um sjálfstæðisflokkinn og varnaðarræða gegn vinstri stjórn. Maðurinn hefur nú sínar skoðanir og enginn að banna honum það en hægri stjórn er vissulega fín, fyrir suma, en vinstri stjórn er fín fyrir alla. En auðvitað myndu einhverjir hafa það aldeilis helvedde fínt með sömu einstefnu og nú er. Honum finnst forræðishyggja vinstri manna aldeilis stórhættuleg en grein þessi er ein forræðishyggja, semsagt leyfa þeim sem hafa það fínt að græða meira og hinir verða bara að redda sér út úr skítnum. En þar sem hann lufsast á lyklaborðinu þá koma setningar eins og...

"Bursta þarf tennurnar á hverjum degi, þvo sér, klæða sig og borða - slá blettinn, mála og endurnýja. Að öllu þarf að hlúa til að það grotni ekki niður. Líka lýðræðinu. Líka frelsinu. Frelsið er aldrei endanlegt heldur stöðug áskorun eins og lífið. Þetta skilur forysta Sjálfstæðisflokksins betur en oddvitar annarra stjórnmálaflokka á Íslandi".

Nú þekki ég ekki manninn og hann er jú kannski bara fínn en ég er talsvert ósammála honum, bara nokkuð mikið eiginlega, en hann líkir okkur við fræ sem þurfi sól og góða mold til að dafna.  En niðurlagið er pínu klikkað, finnst mér, jafnvel kómískt þar sem hann segir ofsóknir í fyrirtæki og heimili til að þvinga fram pólítískan rétttrúnað verða við lýði í nánustu framtíð, komist á vinstri stjórm, ófrjáls opnunartími verslana og bjórbann. "Ávextir frelsisins munu hætta að vaxa". Segir Ragnar, smeykur um eitthvað sem ég ekki skil.

 Það er þó punktur í þessu hjá honum, maður þarf að bursta tennurnar á hverjum degi og kominn tími til að mála og endurnýja.

arnar valgeirsson, 20.3.2007 kl. 18:41

6 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Það er ekki rétt að stjórn Sjálfstæðismanna sé fín fyrir sum og stjórn til vinstri sé fín fyrir alla. Stjórn Sjallanna er fín fyrir flesta en vinstri stjórn er jafnömurleg fyrir alla. Einhvernvegin rámar mig í að hér hafi verið vinstri stjórn fyrir tæpum tveimur áratugum síðan. Þá var atvinnuástand verra og verðbólga meiri en núna, ekki satt? Því var mætt með hærri sköttum, bæði á einstaklinga og fyrirtæki. Svo kom almennileg hægristjórn, lækkaði fyrirtækjaskatta svo fyrirtæki blómstruðu og gátu ráðið fleira fólk í vinnu og allir urðu kátir. Laun hækkuðu og fólk fór að hafa það almennt betra. Enn heyrist þó væl úr hornum, því sumir þola illa að einhver hafi það betra en þeir.

Svo komu vinir þínir í veg fyrir að almenningur hérlendis geti farið út í búð og keypt sér bjór eins og almenningur í flestöllum öðrum vestrænum löndum, svo mér er ekki lengur illa við þá. Ég held ég sé hreinlega farinn að hata þá.

Ingvar Valgeirsson, 21.3.2007 kl. 11:45

7 identicon

Hahaha Ingvar. Ef á að taka mark á hægri-lofi þínu þá er tími til komin að þú viðurkennir þá staðreynd sem ég hef verið að reyna að kenna þér allt of oft. Það voru ekki Sjallarnir sem ,,björguðu" verðbólgunni heldur vinstrimenn, og annað er að pólitískt landslag er ekki það sama nú og þá. Ef Dabbi Drulla hefði verið aðeins þrjóskari þá hefðum við ekki gengið í EES og þá væri ástandið nákvæmlega eins og fyrir 20 árum nema 15 fjölskyldur væru með 15milljónir á mánuði og hefðu efni á sólþurrkuðum tómötum. Mér finnst svo skrítið að þú sem ert ekki illur heldur góður skulir sækjast í þessa mannvonsku sem hægristefnan er. Þú veist að hægristefnan, þ.e.a.s ef þú fylgdist með í sögutímum,  er í gruninn kristinn kalvinismi en þar stendur í ritningunni að efnisleg velgengni er sönnun þess að þú sért guði þóknanlegur. Þetta gerist ekki verra. Samkennd út um gluggann. Kapítalismi byggir á þessum gildum sem eru ekkert annað er illska og mannfyrirlitning, græðgi og hagsmunapot. Hvernig réttlætir þú hægristefnu án þess að fara beinustu leið til kölska?

Ef þú ætlar að byggja atkvæði þitt á bjór í búðum þá er Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn og hann gæti sett bjór og léttvín í búðirnar ef hann vildi það. Stjórnarandstaðan getur ekki gert neitt í því frekar en RUV ohf. Hvernig á Stjórnarandstaðan að hafa farið að því að koma í veg fyrir að bjór yrði settur í búðir en ekki einkavæðinguna? 

Fyrir utan allt annað þá misskilurðu allveg rosalega grunnforsendur í röksemdarfærslu hægristefnunnar eins og hún er skrifuð í dag, og reyndar fyrir 20 árum, en hún er sú að meiri jöfnuður náist með hægristjórn en vinstri. Orðræða í stjórmála-heimspeki snýst fyrst og fremst um stjórnarhætti sem leiði ekki af sér misskiptingu  heldur jöfnuð. Hægristefnan tekur jafnmikinn þátt í þessari umræðu og aðrar stefnur. En þegar fylgismenn Hægriflokka eru farnir að tala eins og misskipting sé eitthvað sem sé í lagi eins og þú gerðir hér að framan þá ertu búin að dæma sjálfan þig úr leik. Hitt er annað mál að í reynd hafa Hægristjórnir út um allan heim leitt af sér sömu félagslegu vandamálin og sömu misskiptinguna, og þá reyna hinir illu hagsmuna potarar að blása ryki í augu andstæðinga með því að kalla þá öfundsjúka þegar þeir gagnrýna stjórnarhætti. Þetta hefur viðgengist svo lengi að stór hluti hægrimanna vita ekki að þeir eru að ljúga. Vissir þú að þú værir að ljúga?  

Elvar Geir Sævarsson (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 12:52

8 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Ég fylgdis nógu vel með í sögutímum til að vita að skilgreiningin á hægri og vinstri hefur breyst talsvert í gegnum tíðina (með Mannakornum). Eins vitum við báðir að hérlendis er ekkert hægri, bara mismikið á miðjunni. Eini flokkurinn sem fer af miðjunni eru vinir ykkar Arnljóts í VG.

Einhverntíma var eitthvað einhverskonar samasemmerki milli hægristefnu og kalvínskra, og það er rétt að einhverjir kalvínistar reyndu af veikum mætti að sannfæra sjálfa sig um að velgengni og velþóknun Drottins tengdust. Það þyrfti ekki að lesa lengi í Nýja testamentinu til að reka það ofan í þá, sbr. að sá sem á tvo kirtla gefi annan þeim sem engan á o.s. frv. Tengsl hægristefnunnar eru í dag meiri við Hobbes en Kalvin. Því sef ég rólegur og get kosið D-ið án þess að hafa hinar minnstu áhyggjur af því að sál mín glóðarsteikist til eilífðarnóns vegna þess.

Hvað vilt þú annars gera til að koma á meiri jöfnuði? Skattleggja tekjuháa meira en orðið er eða banna fyrirtækjum að borga laun yfir einhverju hámarki?

Ingvar Valgeirsson, 21.3.2007 kl. 15:54

9 Smámynd: Heiða

Skattleggja tekjuháa, hækka skattleysismörk, lækka lágmarkslaun og vísitölubinda þau.

Heiða, 21.3.2007 kl. 17:57

10 Smámynd: arnar valgeirsson

Það er allt í lagi að skalttleggja tekjuháa og fyrirtæki meira en "orðið" er, eins og þú orðar það. Hinsvegar ætla ég að svara fyrir þetta hér:

"Svo komu vinir þínir í veg fyrir að almenningur hérlendis geti farið út í búð og keypt sér bjór eins og almenningur í flestöllum öðrum vestrænum löndum, svo mér er ekki lengur illa við þá. Ég held ég sé hreinlega farinn að hata þá".

Björn Ingi laumaði þessu frumvarpi, eða svona varpaði því fram, á síðasta degi. Jamm, fínt að fá tíma til að diskútera þetta. Mínir menn höfnuðu því að afgreiða málið svona á staðnum og stundinni. Sem auðvitað var hárrétt. Enginn sagt að hann/hún sé á móti, en heldur ekki tilbúin/n að skrifa undir einhverja stutta ritgerð frá Binga og félögum sem ætluðu að monta sig á "frelsisframtaki" sínu rétt fyrir kosningar.

Þetta eru bara týpísk vinnubrögð hjá stjórnarflokkunum þessa stundina, leggja fram haug af drasli rétt fyrir lokun og segja svo að við séum á móti öllu og viljum ekki framfarir. Það er þó framför að hægt sé að stoppa þessa drölludela í sjálfsmiðaðri frekjunni. Huxaðu svo áður en þú slengir fram þínum helbláma.

arnar valgeirsson, 21.3.2007 kl. 17:59

11 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

En tekjuháir eru skattlagðir - sem og aðrir. Ég er hinsvegar sammála því að hækka skattleysismörk. Sé ekki ástæðu til að hátt launaðir greiði hærri prósentu en aðrir, þeir borga miklu hærri krónutölu en aðrir.

Mér finnst ekki að það eigi að vísitölubinda laun - það má hinsvegar afnema verðtryggingu lána... held ég. Væri það ekki gott mál, lán eru ekki verðtryggð annarsstaðar í heiminum mér vitanlega. Sé það ekki rétt?

Ingvar Valgeirsson, 21.3.2007 kl. 18:05

12 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

11. kommentið kom inn meðan ég var að skrifa síðasta svo ég vil bæta við:

Arnar minn, þetta var alls ekki í fyrsta skipti sem þessi tillaga fer fyrir þingið. Hefur verið rædd fram og aftur og fram og aftur og svo framvegis. Svo held ég reyndar að það hafi verið Guðlaugur, vinur okkar,  en ekki Bingi sem henti þessu inn. Björn Ingi nebblega alls ekki á þingi.

Eníhjú, þessi tillaga hefur komið fram áður og þingmenn ættu að vera farnir að þekkja hana í bak og fyrir. Ef þeir hafa eitthvað út á hana að setja ættu þeir að vita hvað það er og geta komið með það fram. Ætli VG hafi ekki viljað stoppa málið svo þeir geti sent það í gegn þegar og ef þeir komast í stjórn svo þeir geti eignað sér eitthvað af því sjálfir?

Ingvar Valgeirsson, 21.3.2007 kl. 18:19

13 Smámynd: arnar valgeirsson

Það er rétt hjá þér litli bró að Bingi er ekki á þingi. Þú getur nú rétt ímyndað þér hvað mér leiðist að hafa farið með rangt mál á bloggi þínu, um pólítik, en mér dettur ekki í hug að biðjast afsökunar á sama stað. það var hinsvegar Bingi sem vældi sem mest í fjölmiðlum. Nákvæmlega þetta frumvarp hefur nú ekkert verið sett fram áður og það átti að rusla því í gegn, á síðustu sentimetrunum, að hætti þessarar stjórnar. Svo veistu það að það er hlutverk andstöðunnar að stoppa það sem er hroðvirknislega samið, eins og td þetta og auðlindamálið. En þú átt nú eftir að komast betur að hlutverki andstöðunnar um miðjan mai.

arnar valgeirsson, 21.3.2007 kl. 23:01

14 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Jú, það er stór og ógnvekjandi möguleiki á vinstri stjórn í vor. En það er í lagi, þær endast aldrei lengi - nógu lengi til að klúðra helling, en það má laga með tíð og tíma.

Ég get hinsvegar skrifað undir að þetta auðlindamál var hálfbjánalegt. Mér fannst hinsvegar gaman að fréttaflutningi um það. Stöð 2 talaði við tvo þingmenn í einum fréttatímanum, báða Samfylkingarmenn, til að útskýra málið. Annar þeirra var Kristján Möller, sem stóð upp við umferðarskilti og talaði um að stjórnin væri að reyna að troða þessu í gegn með offorsi, enda væri bara ein leið á þingi, leið stjórnarinnar. Svo benti hann á umferðarskiltið og sagði "það er eins og þetta skilti, bara einstefna, stefna stjórnarinnar!"

Merkið var innakstur bannaður.

Ingvar Valgeirsson, 22.3.2007 kl. 11:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband